Alþjóðlegur dagur svefns - Svefn er mikilvægur fyrir heilsu
17. mars 2023
Góður svefn er mikilvæg forsenda heilsu og vellíðanar.
Góður svefn er mikilvæg forsenda heilsu og vellíðanar. Svefn er okkur öllum nauðsynlegur til þess að takast á við viðfangsefni daglegs lífs. Svefn hefur m.a. jákvæð áhrif á ónæmiskerfið, námsgetu og einbeitingu. Þá stuðlar góður svefn að því að festa upplýsingar í minni og er nauðsynlegur fyrir vöxt og þroska barna. Alþjóðlegur dagur svefns er í dag 17. mars, tilgangurinn með deginum er að vekja athygli á mikilvægi svefns fyrir heilsu með þemanu „Svefn er mikilvægur fyrir heilsu“ (e. Sleep Is Essential for Health). Svefn er ein af grunnstoðum andlegrar og líkamlegrar heilsu ásamt m.a. góðri næringu og hreyfingu og stuðlar þannig að vellíðan. Frekari upplýsingar um alþjóðlegan dag svefns má finna á https://worldsleepday.org/
Svefn Íslendinga
Svefnþörf getur verið mismunandi en mælt er með að fullorðnir sofi 7 til 9 klukkustundir á nóttu og börn lengur, en það má sjá nánar í töflu um æskilegan svefntíma eftir aldri. Að vakna úthvíld að morgni er í raun besti mælikvarðinn á það hvort uppfylltri svefnþörf hefur verið náð. Samkvæmt niðurstöðum úr Vöktun embættis landlæknis árið 2022 eru um 27% fullorðinna Íslendinga, 18 ára og eldri, sem sefur að meðaltali 6 klukkustundir eða skemur á nóttu og nær því ekki ráðlögðum svefni.
Svefnþörf barna er mismunandi eftir aldri. Æskilegur svefntími barna á aldrinum 6-13 ára er 9-11 klukkustundir. Fyrir ungmenni á aldrinum 14-17 ára er æskilegt að sofa 8-10 klukkustundir. Niðurstöður úr Íslensku æskulýðsrannsókninni 2022 sem framkvæmd var af Menntavísindastofnun Háskóla Íslands sýna að um fjórðungur barna í 6. bekk nær ekki ráðlagðri svefnlengd á virkum dögum. Hlutfallið er mun hærra meðal nemenda í 10. bekk en um helmingur þeirra nær ekki ráðlagðri svefnlengd á virkum dögum. Nánari upplýsingar um rannsóknina má finna hér.
Ráð sem geta stuðlað að betri svefni
Gott er að hafa eftirfarandi í huga til að stuðla að góðum svefni:
Rútína er mjög hjálpleg. Mikilvægast er að fara að sofa á sama tíma á kvöldin og fara á fætur á sama tíma á hverjum morgni, líka um helgar.
Hreyfing leiðir til vellíðanar og betri svefns. Gott er að temja sér reglulega hreyfingu en æfingar með mikilli ákefð seint á kvöldin geta þó haft slæm áhrif á nætursvefn.
Rólegheit að kveldi hjálpa til við að festa svefn. Dauf lýsing og svalt hitastig er einnig æskilegt í svefnherberginu á kvöldin.
Koffín truflar svefn og rétt er að neyta þess í hófi og ekki eftir klukkan tvö á daginn.
Áfengi hefur neikvæð áhrif á gæði svefns. Sumir telja að áfengi hjálpi til að sofna en það truflar gæði svefns.
Birta af skjátækjum rétt fyrir svefn getur haft áhrif á gæði svefns. Æskilegt er að sleppa skjátækjum u.þ.b. klukkustund fyrir svefn.
Hugleiðsla, núvitund eða lestur bóka fyrir svefn auðveldar mörgum að sofna og eiga góðan nætursvefn.
Embætti landlæknis í samstarfi við fjölda stofnanna hefur frá haustinu 2021 farið fyrir vitundarvakningu um mikilvægi svefns. Lögð hefur verið áhersla á hvatningu, staðreyndir og ráð varðandi svefn hafa verið gerð sýnileg m.a. á samfélagsmiðlum. Fólk hefur verið hvatt til þess að setja svefninn í forgang og stuðla þannig að betri líðan.
Nánari upplýsingar um svefn og hvíld má finna á vefsíðu embættis landlæknis og á Heilsuveru.