Alþjóðlegur berkladagur 2023
24. mars 2023
24. mars er alþjóðlegi berkladagurinn, en þann dag árið 1882 lýsti Dr. Robert Koch því yfir að hann hefði uppgötvað orsök berklasjúkdómsins, berklabakteríuna Mycobacterium tuberculosis. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO velur þema ár hvert, 2023 er þemað „Jú! Við getum bundið enda á berkla!“
Mynd 1
Hér á Íslandi var hápunktur berklafaraldursins fyrir tilkomu virkrar lyfjameðferðar heldur seinna á ferð en víðast hvar í Evrópu, eða á fjórða áratug 20. aldar. Á fimmta og sjötta áratugnum komu smám saman fram lyfin sem enn þann dag í dag eru kjarninn í meðferð berkla, þ.e.a.s. berkla sem eru næmir fyrir venjulegri meðferð. Í kjölfarið fór að fækka einstaklingum á berklaskrá og nýjum smitum. Undanfarna 3 áratugi hefur nýgengi berkla hér á landi verið um 2–5 tilfelli á hverja 100.000 íbúa ár hvert, með því lægsta sem gerist í Evrópu (mynd 1). Stór hluti tilfella hér undanfarna áratugi hefur komið upp meðal einstaklinga sem flust hafa hingað til lands, oftast á fullorðinsárum, en endurvakning sýkingar hjá eldra fólki sem líklega smitaðist hér á landi á unga aldri hefur átt sinn þátt í tilfellum hér á landi allt fram til dagsins í dag. Örfá tilvik undanfarin 20 ár eiga rætur að rekja til nýlegra smita innanlands, en hér hefur áratugum saman tíðkast að rekja smit þegar smitandi berklar koma upp og bjóða þeim sem hafa smitast af berklum fyrirbyggjandi meðferð sem dregur verulega úr líkum á að bakterían nái bólfestu og valdi síðar sjúkdómi.
Berklar þrífast vel þar sem ófriður, fátækt, hungursneyð og aðrar krísur s.s. alvarlegur HIV-faraldur trufla heilbrigðisþjónustu og almennu heilsufari hnignar. Heimsfaraldur COVID-19 hefur víðast hvar leitt til þess að dregið hefur úr árangrinum í baráttunni gegn berklum sem var á fremur góðri leið víða fyrir 2020. Samgöngutakmarkanir, útgöngubönn, breytt forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu, flutningur starfsfólks í önnur verkefni o.s.frv. hafa öll átt sinn þátt í því að talið er að vangreining nýrra tilfella árin 2020-2021 hafi verið með versta móti. Áætlað er að um 4 milljónir manna með berklaveiki hafi ekki fengið greiningu og meðferð á árinu 2021 eða um 40% af öllum sem veiktust af berklum það ár. Sums staðar, þar sem aðgengi að annarri heilbrigðisþjónustu er e.t.v. af skornum skammti en berklar hafa verið í forgangi er þetta minna áberandi. Í S-Afríku t.d. voru berklameðferðarstöðvar virkjaðar í baráttunni gegn COVID-19 og var þá leitað kerfisbundið að báðum sýkingunum þegar sjúklingar sóttust eftir meðferð vegna öndunarfæraeinkenna.
Í fyrrum Sovétríkjum og víðar í heiminum hafa vandamál í tengslum við lyfjaframboð, aðgengi að greiningu og lyfjameðferð o.s.frv. leitt til þess að fram hafa komið berklastofnar með minnkað næmi gegn þeim lyfjum sem mikilvægust hafa verið í baráttunni gegn berklum hér á landi og víðar. Hingað til hafa slíkir stofnar verið ákaflega sjaldgæfir hér á landi, en hafa komið upp meðal einstaklinga frá svæðum þar sem lyfjaónæmi er vel þekkt vandamál.
Mynd 2
Meðferð ónæmra berkla hefur verið ákaflega flókin og langvinn og lyfin mörg með mjög alvarlegar aukaverkanir, en á undanförnum 5–10 árum hafa komið fram ný lyf og nýjar rannsóknir á notkun eldri lyfja, sem hafa gjörbylt lífsgæðum og horfum sjúklinga með ónæma berkla. Þar sem ónæmi torveldar einnig fyrirbyggjandi lyfjameðferð er mjög ákjósanlegt að fólk með ónæma berkla greinist snemma og fái viðeigandi meðferð mjög fljótt, en það dregur úr hættu á að það sé smitandi vikum eða mánuðum saman og dregur því úr útbreiðslu ónæmra stofna. Með þessum nýju meðferðum og næmari, bráðvirkari greiningaraðferðum hefur vonin um að hægt verði að útrýma berklum glæðst á ný.
Sjá einnig:
Um berklaveiki á Íslandi – Sigurður Sigurðsson, berklayfirlæknir 1935–1973, greinin birtist í Læknablaðinu 1976 og aftur 2005
World TB Day 2023 hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni
Ending tuberculosis in Europe - resetting the course in the post-COVID-19 era grein í Eurosurveillance í tilefni af alþjóðlega berkladeginum 2023
Berklagreiningar í Evrópu eru aðgengilegar hjá Sóttvarnastofnun Evrópu ECDC
Sóttvarnalæknir