Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Aðgerðir til að efla vöktun smitsjúkdóma á Íslandi

22. október 2024

Sóttvarnalæknir hefur tryggt veglegan styrk frá Evrópusambandinu til embættis landlæknis frá 1. janúar 2025 til að efla stafræn kerfi og gagnagrunna varðandi sóttvarnir hérlendis.

Mynd með frétt. Evrópustyrkur

Heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins (EU4Health) styrkir verkefnið um rúmlega 470 milljónir króna (tæpar 3,2 milljónir evra). Vægi þessa verkefnis undirstrikar þá miklu og vaxandi áherslu sem Evrópusambandið leggur á aðgerðir til styrktar heilsuógnum þvert á landamæri á komandi árum. Mestur kostnaður verður í formi tæknilegrar verktakavinnu hérlendis utan stofnunar en embætti landlæknis leggur einnig til starfskraft til ákveðinna verka.

Mynd European Commission

EU4H-2023-DGA-MS3-IBA: improving and strengthening national surveillance systems

Styrkurinn miðar að því að styrkja vöktunarkerfi sóttvarna á Íslandi, sérstaklega með hliðsjón af áskorunum sem glímt var við í COVID-19 heimsfaraldrinum. Með því að takast á við helstu viðfangsefni sem við stóðum frammi fyrir stefnum við að því að efla viðbúnað og viðbragðsgetu okkar og einnig vera skilvirkari þátttakendur í vöktun á ESB/EES svæðinu.

Aðgerðir

Umsóknin gengur út á víðtækar umbætur á stafrænum lausnum tengdum gagnagrunnum sóttvarnalæknis. Verkefnin beinast að nokkrum lykilatriðum:

  • Efla smitsjúkdómaskrá sem gagnagrunns til móttöku gagna og þar með úrvinnslu þeirra.

  • Þróa sýnatökukerfi sem nái yfir ýmsa sýkla, sérstaklega öndunarfæraveirur eins og COVID-19 og inflúensu til að nota í faröldrum.

  • Koma á tengingu milli gagnagrunna til að efla alhliða vöktun, þar á meðal á alvarlegum sýkingum.

  • Að innleiða kerfi fyrir lækna í rafrænni sjúkraskrá til að senda klínískar upplýsinga fyrir tiltekna tilkynningarskylda sjúkdóma samkvæmt lögum, til að auka hagræði og bæta skil.

  • Þróa öflugan gagnagrunn fyrir smitrakningu um atburði sem krefjast slíks.

  • Bæta stafrænt viðmót til birtingar gagna úr vöktun sem sýnir þróun sjúkdóma nær rauntíma.

Markmið

Með þessum umbótum er stefnt að því að nútímavæða og styrkja innviði vöktunar á Íslandi, og gera vöktun, forvarnir, viðbragð og sóttvarnir almennt skilvirkari.

Sóttvarnalæknir