Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja

16. nóvember 2021

Þann 18. nóvember hefst vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja sem haldin er að tilstuðlan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) en dagurinn 18. nóvember er einnig sérstaklega helgaður vitundarvakningu í Evrópu af Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC).

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Þann 18. nóvember hefst vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja sem haldin er að tilstuðlan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) en dagurinn 18. nóvember er einnig sérstaklega helgaður vitundarvakningu í Evrópu af Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC).

Tilgangur þessarar vitundarvakningar er að minna einstaklinga, stjórnvöld, heilbrigðisstarfsmenn og aðra aðila á mikilvægi þess að nota sýklalyf skynsamlega og minna á þá ógn sem stafar af útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.

Orsakir sýklalyfjaónæmis eru margvíslegar en ógætileg notkun sýklalyfja hjá bæði mönnum og dýrum er ein sú mikilvægasta. Uppgötvun sýklalyfja er ein merkilegasta uppgötvun læknisfræðinnar og hafa þau komið í veg fyrir milljónir fylgikvilla og dauðsfalla vegna smitsjúkdóma og sýkinga. Því er mikilvægt að koma í veg fyrir útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og viðhalda virkni sýklalyfja um langa framtíð.

Árleg skýrsla sóttvarnalæknis um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería í mönnum og dýrum á Íslandi fyrir árið 2020 hefur nú verið gefin út. Skýrslan er unnin í samvinnu við Landspítala, Lyfjastofnun og Matvælastofnun (MAST). Í ljós kemur að sýklalyfjanotkun hjá mönnum er áfram meiri á Íslandi en öðrum Norðurlöndum en er um miðbik miðað við önnur Evrópulönd. Hins vegar er sýklalyfjanotkun hjá dýrum hérlendis áfram ein sú minnsta í Evrópu.

Sýklalyfjaónæmi hefur enn ekki náð sömu útbreiðslu á Íslandi og í flestum öðrum Evrópulöndum. Til að viðhalda þeirri stöðu er nauðsynlegt að stuðla áfram að markvissri sýklalyfjanotkun hjá mönnum og dýrum. Auk þess er mikilvægt að efla eftirlit með ónæmum bakteríum í mönnum, húsdýrum, matvælum og umhverfi.

Á vef embættis landlæknis er að finna ýmsar upplýsingar um sýklalyf og sýklalyfjaónæmi.

Nýlega birtist í Læknablaðinu frétt um vitundarvakningu um sýklalyf og stöðuna á Íslandi.

Lesa nánar: Skýrsla sóttvarnalæknis um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería í mönnum og dýrum á Íslandi fyrir árið 2020.

Einnig er ýmislegt fróðlegt efni á vef og samfélagsmiðlum embættisins:

Anna Margrét Halldórsdóttir, yfirlæknir á sóttvarnasviði