Vinnustofa á Suðurnesjum um geðrækt og heilsueflingu í leikskólum
18. febrúar 2019
Embætti landlæknis hélt vinnustofu um geðrækt og heilsueflingu í leikskólum í samstarfi við Reykjanesbæ þann 31. janúar sl. Vinnustofan var afar vel sótt og var starfsfólk frá 11 leikskólum á Suðurnesjum sem tóku þátt.
Embætti landlæknis hélt vinnustofu um geðrækt og heilsueflingu í leikskólum í samstarfi við Reykjanesbæ þann 31. janúar sl. Vinnustofan var afar vel sótt en starfsfólk frá 11 leikskólum á Suðurnesjum tóku þátt.
Vinnustofan hófst með kynningu á Heilsueflandi leikskóla sem er heildstæð nálgun fyrir heilsueflingu í leikskólastarfi. Fjallað var sérstaklega um geðrækt starfsfólks og vellíðan á vinnustað ásamt umræðum um heilsueflingarstarf leikskólans. Seinni hluti vinnustofunnar var tileinkaður geðræktarstarfi þar sem þátttakendur fengu fræðslu um meginþætti geðræktarstarfs í leikskólum og unnu saman verkefni þar sem styrkleikar skólans voru greindir og áætlun gerð um eflingu starfsins á völdum sviðum.
Heilsueflandi leikskóli er leið sem embættið býður leikskólum til að styðja við innleiðingu á þeim þætti aðalnámskrár sem snýr að heilbrigði og velferð. Boðið er upp á aðgang að lokuðu vinnusvæði þar sem leikskólar setja inn heilsustefnu og geta metið sína stöðu með hjálp gátlista. Embætti landlæknis býður upp á ýmislegt efni til stuðnings og heldur reglulega málþing og ráðstefnur er tengjast heilsueflingu.
Frekar vinnustofur eru áætlaðar víðar um landið á árinu auk þess sem boðið verður upp á sérstakt netnámskeið um vellíðan ætlað starfsfólki í Heilsueflandi leikskólum seinna í vor.
Jenný Ingudóttir, verkefnastjóri Heilsueflandi leikskóla jenny@landlaeknir.is
Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar sigrun@landlaeknir.is