Verum þakklát fyrir það sem við höfum
31. mars 2020
Á þessum tímum kórónuveiru er þakklæti ef til vill ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann. Það er misjafnt hvernig við hugsum um þakklæti, sum okkar eiga mjög auðvelt með það en önnur þurfa að hafa meira fyrir því og finnst það kannski óþarfi
Embætti landlæknis hefur tekið saman tíu heilræði sem byggja á niðurstöðum rannsókna á því hvað er mikilvægt að hafa í huga til að hlúa vel að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Heilræði dagsins í dag snýr að þakklæti.
Veitum því góða í lífi okkar athygli og verum þakklát fyrir það. Gott er að rifja upp þrjú atriði til að þakka fyrir á hverjum degi, til dæmis við matarborðið eða áður en farið er að sofa. Það sem við hugsum um hefur áhrif á það hvernig okkur líður.
Á þessum tímum kórónuveiru er þakklæti ef til vill ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann. Það er misjafnt hvernig við hugsum um þakklæti, sum okkar eiga mjög auðvelt með það en önnur þurfa að hafa meira fyrir því og finnst það kannski óþarfi. Munum að allt sem við veitum athygli vex og dafnar. Að þakka fyrir það sem er gott í lífinu eykur jákvæðar tilfinningar, sem er ekki bara gott í sjálfu sér heldur hafa rannsóknir sýnt að það getur styrkt ónæmiskerfið.
Það þarf ekki að vera flókið eða hástemmt að finna til þakklætis. Kannski erum við þakklát fyrir að búa á Íslandi, þar sem ríkir friður og traust í samfélaginu, og fyrir að búa í samfélagi þar sem öll börn njóta skólagöngu yfir í að eiga hreinlega mjólk á morgunkornið eða að börnin nutu þess að púsla saman, þó ekki væri nema stundarkorn. Að beina athyglinni að því sem er gott þýðir ekki að maður loki augunum fyrir erfiðleikum, en það er gott að hugsa líka um aðra hluti.
Hér eru nokkrar hugmyndir sem geta hjálpað okkur að finna til þakklætis:
Við kvöldmatarborðið getum við sagt frá einhverju sem við erum þakklát fyrir, t.d. einhverju skemmtilegu sem gerðist yfir daginn.
Við getum líka valið að skrifa þrjá hluti sem við erum þakklát fyrir í dagbók (á hverjum degi eða þrisvar í viku).
Sendum tveimur vinum reglulega rafræn skilaboð um hvað við erum þakklát fyrir eða góða hluti sem gerðust þann daginn.
Skrifum bréf til manneskju sem skiptir okkur máli og segjum henni hvers vegna við erum þakklát fyrir að hafa hana í lífi okkar.
Það er einnig gott að kenna börnum og ungmennum slíkar venjur svo að þau komi einnig auga á það sem er gott og eigi auðveldara með að takast á við krefjandi aðstæður.
Nánari upplýsingar um hvað hægt er að gera til að bæta líðan má finna á Heilsuveru
Lýðheilsusvið embættis landlæknis