Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Vegna umræðu um afgreiðslu umsókna um starfsleyfi

10. nóvember 2021

Við afgreiðslu umsókna um starfsleyfi ber embætti landlæknis að fylgja gildandi lögum og reglugerðum sem gilda um slíka afgreiðslu.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Í kjölfar umræðu síðustu daga um afgreiðslu umsókna um starfsleyfi vill embætti landlæknis vekja athygli á eftirfarandi:

Við afgreiðslu umsókna um starfsleyfi ber embætti landlæknis að fylgja gildandi lögum og reglugerðum sem gilda um slíka afgreiðslu. Lög um heilbrigðisstarfsmenn og reglugerðir löggiltra heilbrigðisstétta kveða á um hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að geta öðlast starfsleyfi. Markmið laga um heilbrigðisstarfsmenn er að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfshætti þeirra.

Kröfurnar eru mismunandi eftir því hvaða stétt er um að ræða og hvort umsækjandi sækir um á grundvelli menntunar sem viðkomandi hefur stundað á Íslandi, innan Evrópska efnahagssambandins (EES) eða utan þess. Þá gilda mismunandi reglur um EES-ríkisborgara og ríkisborgara ríkja utan EES.

  • Umsækjendur sem lokið hafa menntun frá háskólum eða framhaldsskólum á Íslandi þurfa að sækja um starfsleyfi hjá embætti landlæknis og framvísa gögnum um tilskylda menntun hér á landi.

  • Ef umsækjandi er EES-ríkisborgari og hefur stundað nám innan EES-ríkis skiptir máli í hvaða heilbrigðisgrein það var. Ef umsækjandi sækir um starfsleyfi í svokallaðri „samræmdri stétt“ (læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, tannlæknar og lyfjafræðingar) þar sem lágmarkskröfur og innihald náms hafa verið skilgreind í tilskipun um viðurkenningu á menntun og hæfi, ber honum að framvísa staðfestingu um að námið sé í samræmi við fyrrgreinda tilskipun. Um afgreiðslu slíkra umsókna gildir reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss til að starfa hér á landi.

  • Ef umsækjandi er EES-ríkisborgari og hefur stundað nám innan EES-ríkis en sækir ekki um starfsleyfi í samræmdri stétt hér á landi þarf viðkomandi að framvísa með umsókn sinni ítarlega lýsingu á því námi sem umsækjandi hefur lokið. Embætti landlæknis sendir í slíkum tilvikum umsókn til umsagnar viðeigandi menntastofnunar.

  • Ef umsækjandi er EES-ríkisborgari en hefur stundað nám í ríki utan EES þarf umsækjandi að hafa undir höndum starfsleyfi frá öðru EES-ríki og þriggja ára starfsreynslu í greininni innan EES svo heimilt sé að veita honum starfsleyfi hér á landi. Ef umsækjandi getur ekki sýnt fram á framangreint verður að leggja mat á innihald námsins. Embætti landlæknis sendir umsóknina til umsagnar viðeigandi menntastofnunar. Því ber umsækjandi einnig að framvísa ítarlegri lýsingu á því námi sem hann hefur lokið.

  • Ef umsækjandi er ríkisborgari ríkis utan EES þá gilda frekari skilyrði um framlagningu gagna samkvæmt reglugerðum heilbrigðisstéttanna. M.a. þurfa slíkir umsækjendur að framvísa starfsleyfi í viðkomandi ríki, staðfestingu á umsókn um atvinnu- og dvalarleyfi og ráðningarsamningi. Í þessum tilvikum ber landlækni að leita álits viðeigandi menntastofnunar og því þarf einnig að fylgja með ítarleg lýsing á námi umsækjanda.

Að gefnu tilefni bendir embætti landlæknis á að málsmeðferð við afgreiðslu umsókna um starfsleyfi sálfræðinga er sambærileg við málsmeðferð sem gildir um afgreiðslu umsókna annarra heilbrigðisgreina sem berast embættinu. Embætti landlæknis ber að sjá til þess að umsækjandi uppfylli tilskildar kröfur viðeigandi laga og reglugerða áður en starfsleyfi er útgefið.

Hér má finna nánari upplýsingar um starfsleyfi á vef embættis landlæknis.

Nánari upplýsingar veitir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis (kjartanh@landlaeknir.is).