Úttekt Embættis landlæknis á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
9. október 2018
Embætti landlæknis birtir í dag skýrslu um úttekt sem gerð var á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem lýtur einkum að gæðum starfsemi hennar.
Embætti landlæknis birtir í dag skýrslu um úttekt sem gerð var á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem lýtur einkum að gæðum starfsemi hennar.
Meðal hlutverka Embættis landlæknis er að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og að vera stjórnvöldum og fagfólki til ráðgjafar. Úttekt sem þessi er mikilvægur liður í því sambandi og er hún gerð að frumkvæði embættisins.
Helstu ábendingar Embættis landlæknis til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins snúa að því að efla gæða- og umbótastarf ásamt því að styrkja geðheilbrigðisþjónustu.
Einnig eru í skýrslunni ábendingar til velferðarráðuneytisins sem einkum snúa að því að aðlaga fjármögnunarkerfi heilsugæslunnar að mönnunarþörf og umfangi starfseminnar, svo og að skoða húsnæðismál.
Þetta er ein umfangsmesta úttekt sem embættið hefur ráðist í. Margvíslegum aðferðum var beitt við upplýsingaöflun; töluleg gögn skoðuð og farið í heimsókn á allar starfsstöðvar og starfseiningar sem eru yfir 20 talsins. Fundað var með framkvæmdastjórn og öðrum stjórnendum auk þess sem viðtöl voru höfð við starfsfólk. Alls var rætt við um 80 manns.
Fram kemur í úttektinni að framfarir hafi orðið á starfseminni á liðnum árum, einkum hefur aðgengi að þjónustu verið aukið en Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sinnir um 390.000 heimsóknum árlega. Þá er áberandi metnaður fagfólks til að sinna þjónustunni sem best.
Það er von embættisins að úttektin verði til þess að gæða- og umbótastarf innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins verði eflt enn frekar, þjónustuþegum og starfsfólki til hagsbóta. Þannig verður góð þjónusta gerð enn betri.
Nánari upplýsingar gefur Laura Sch. Thorsteinsson, teymisstjóri úttekta.