Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Undirbúningur bólusetningar 5-11 ára barna gegn COVID-19

16. desember 2021

Unnið er að því að skipuleggja bólusetningar 5-11 ára barna (árganga 2010-2016) í byrjun árs 2022. Ekki er komið á hreint hvernig verklag verður á landsvísu en stefnt er að því að bjóða forsjáraðilum barna í þessum árgöngum að taka afstöðu varðandi bólusetninguna fyrir sín börn í viku 1 og hefja framkvæmd bólusetninga í viku 2 2022.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Unnið er að því að skipuleggja bólusetningar 5-11 ára barna (árganga 2010-2016) í byrjun árs 2022. Ekki er komið á hreint hvernig verklag verður á landsvísu en stefnt er að því að bjóða forsjáraðilum barna í þessum árgöngum að taka afstöðu varðandi bólusetninguna fyrir sín börn í viku 1 og hefja framkvæmd bólusetninga í viku 2, 2022.

Til að hægt sé að bólusetja sem flest barnanna, sem þiggja bólusetningu á sem stystum tíma, kemur til greina að nota húsnæði grunnskólanna fyrir árganga 2010-2015 en endanleg ákvörðun um fyrirkomulag eftir samráð sóttvarnalæknis, heilsugæslu og skólayfirvalda á landsvísu liggur ekki fyrir.

Árgangur 2016 verður bólusettur á heilsugæslustöðvunum, en ekki er enn ljóst hvernig skipulagið verður fyrir þann hóp, opnir dagar eða tímabókanir. Sú leið er einnig til umræðu fyrir eldri börnin, ásamt öðrum kostum, sem yrðu sennilega tafsamari í framkvæmd en bólusetning í skólum.

Sóttvarnalæknir ber ábyrgð á því að bjóða bólusetninguna þessum aldurshópi og framkvæmd bólusetningar er á vegum heilsugæslunnar, en skólahjúkrunarfræðingar eru starfsmenn heilsugæslu, ekki skólanna. Skólarnir hafa ekki aðkomu að skráningu í bólusetninguna né framkvæmdinni, eingöngu er til umræðu að húsnæði skólanna verði notað til að börnin séu í kunnuglegu umhverfi og hægt sé að framkvæma bólusetninguna fyrir þennan hóp með álíka hraða og við höfum gert með aðra aldurshópa.

Kynningarefni fyrir almenning og fyrir forsjáraðila til að skoða með börnum sínum er í vinnslu og verður birt á covid.is.

Sjá einnig grein sóttvarnalæknis 13.12.2021 um ákvörðun um að bjóða aldurshópnum bólusetningu.

Sóttvarnalæknir