Tannverndarvika 4. – 8. febrúar 2019
4. febrúar 2019
Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir tannverndarviku 4.-8. febrúar 2019 með skilaboðum til landsmanna um að huga vel að tannheilsunni og skráningu hjá heimilistannlækni.
Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir tannverndarviku 4.-8. febrúar 2019 með skilaboðum til landsmanna um að huga vel að tannheilsunni og skráningu hjá heimilistannlækni. Sérstök áhersla verður lögð á tannheilsu fólks með geðraskanir.
Ganga þarf frá skráningu heimilistannlæknis á vefsíðu Sjúkratrygginga til að tryggja greiðsluþátttöku vegna kostnaðar við almennar tannlækningar barna, fólks með andlega þroskahömlun, öryrkja og aldraðra. Tannlæknar geta einnig séð um skráninguna þegar mætt er í bókaðan tíma.
Kostnaður vegna almennra tannlækninga barna er greiddur af Sjúkratryggingum Íslands, að frátöldu 2500 kr. komugjaldi sem greitt er einu sinni á 12 mánaða fresti. Sérstök athygli er vakin á aukinni greiðsluþátttöku í kostnaði við almennar tannlækningar fólks, 18 ára og eldri með andlega þroskahömlun. Það sama á við um langsjúka öryrkja og aldraða sem dvelja á sjúkrahúsum eða hjúkrunarheimilum. Hjá öðrum 67 ára og eldri, 60-66 ára sem njóta óskerts ellilífeyris frá Tryggingastofnun og öryrkjum, miðast greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga vegna almennra tannlækninga við 50%.
Stjórnendur leik-, grunn- og framhaldsskóla eru hvattir til að leggja áherslu á fræðslu, umfjöllun og viðburði sem tengjast tönnum og tannheilsu. Fræðsluefni og myndbönd um tannhirðu má nálgast á landlaeknir.is og heilsuvera.is þar sem einnig má finna myndbandið Þetta er ekki flókið þar sem ungt fólk er hvatt til þess að huga vel að tannheilsunni.
Að venju eru fyrirtæki sem flytja inn og selja tannhirðuvörur hvött til að nýta sér tannverndarvikuna til að kynna vörur sínar. Einnig eru stjórnendur verslana hvattir til að bjóða afsláttarkjör af tannhirðuvörum og hollri matvöru og afnema afsláttarkjör af sælgæti.
Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir