Tannverndarvika 29. janúar – 2. febrúar 2018
22. janúar 2018
Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir tannverndarviku 29. janúar-2.febrúar 2018 með skilaboðum til landsmanna um að huga betur að tannheilsunni og leggja enn meiri áherslu á góða tannhirðu.
Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir tannverndarviku 29. janúar - 2.febrúar 2018 með skilaboðum til landsmanna um að huga betur að tannheilsunni og leggja enn meiri áherslu á góða tannhirðu.
Fyrirtæki sem flytja inn og selja tannhirðuvörur eru hvött til að nýta sér tannverndarvikuna til að kynna vörur sínar. Einnig eru stjórnendur verslana hvattir til að bjóða afsláttarkjör af tannhirðuvörum og hollri matvöru og afnema jafnframt afsláttarkjör af sælgæti.
Einnig vekjum við athygli á því við foreldra/forráðamenn barna að panta tíma í tannskoðun fyrir börn sín ef ekki er búið að ganga frá skráningu heimilistannlæknis. Lista með nöfnum starfandi heimilistannlækna má nálgast hér.
Stjórnendur leik-, grunn- og framhaldsskóla eru hvattir til að leggja áherslu á fræðslu, umfjöllun og viðburði sem tengjast tönnum og tannheilsu. Fræðsluefni og myndbönd um tannhirðu má nálgast á landlaeknir.is og heilsuvera.is þar sem einnig má finna myndbandið Þetta er ekki flókið þar sem ungt fólk er hvatt til þess að huga betur að tannheilsunni.
Stjórnendur leikskóla eru enn fremur hvattir til að kalla eftir upplýsingum um skráðan heimilistannlækni og upplýsa foreldra um að börn yngri en þriggja ára eiga nú rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum.
Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir