Tækifæri til að fjölga Skráargatsmerktum vörum á markaði
30. mars 2021
Frá og með 26. mars 2021 hefur ný reglugerð fyrir Skráargatið tekið gildi.
Frá og með 26. mars 2021 hefur ný reglugerð fyrir Skráargatið tekið gildi. Ástæðan er breytingar sem orðið hafa á matvörumarkaði og aukin eftirspurn neytenda eftir að að geta fundið grænmetisvörur og tilbúna rétti með Skráargatsmerkinu. Það gagnast því fleiri neytendum nú en áður. Nú þegar hægt verður að merkja fleiri jurtaafurðir sem innihalda heilkornavörur, grænmeti og belgjurtir með Skráargatinu verður auðveldara að velja matvörur sem eru góður kostur fyrir heilsuna. Þetta endurspeglast í nýju reglugerðinni fyrir Skráargatið.
Vinsælar hollar matvörur sem áður hafa ekki getað notað Skráargatið meðal annars vegna þess að þær hafa ekki uppfyllt kröfur um skammtastærðir og skilgreiningar í reglugerðinni geta nú fengið merkið. Með nýju reglugerðinni er hægt að skipta út hluta af kornvörum fyrir grænmeti og belgjurtir í matvælaflokkunum mjöl og korn, grauta, brauð og pasta. Að auki geta heilkorn, grænmeti og belgjurtir komið í stað hluta kjötsins í kjötvörum. Neytendur geta áfram treyst því að með því að velja vörur merktar með Skráargatinu þá hafi þeir valið hollari kostinn innan þess vöruflokks sem varan tilheyrir .
Breyting er einnig gerð á merkinu sjálfu þannig að frá 1. mars 2021 fylgir ekki táknið ® með Skráargatinu. Hægt verður að merkja vörur með Skráargatinu ásamt tákninu ® fram til 1. september 2024 og þar til birgðir eru uppurnar.
Lesa nánar:
Reglugerð nr. 333/2021 um notkun Skráargatsins við markaðssetningu matvæla
Upplýsingar um Skráargatið.
Staðreyndir um Skráargatið
Skráargatið er samnorrænt opinbert merki sem finna má á umbúðum matvara sem uppfylla ákveðin skilyrði varðandi samsetningu næringarefna þ.e. hollari fita, minni sykur og salt og meira af trefjum og heilkorni. Markmiðið með Skráargatinu er að neytendur geti á einfaldan hátt valið hollari matvöru, auk þess hvetur það matvælaframleiðendur til að þróa hollari vörur og stuðla þannig að auknu úrvali af hollum matvælum á markaði.
Matvælastofnun og embætti landlæknis standa að Skráargatinu en Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga sjá um að farið sé eftir reglum um notkun merkisins. Framleiðendum er frjálst að nota Skráargatið á þær vörur sem uppfylla skilyrði til að bera merkið.
Nánari upplýsingar veita verkefnisstjórar næringar
Jóhanna Eyrún Torfadótir, netfang: johannaeyrun@landlaeknir.is
Hólmfríður Þorgeirsdóttir, netfang: holmfridur@landlaeknir.is