Skeiða- og Gnúpverjahreppur gerist Heilsueflandi samfélag
16. september 2020
Skeiða- og Gnúpverjahreppur gerist Heilsueflandi samfélag
Skeiða- og Gnúpverjahreppur varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) þann 14. september sl. þegar Björgvin Skapti Bjarnason oddviti og Alma D. Möller landlæknir undirrituðu samning þess efnis í félagsheimilinu Árnesi. Viðstaddir voru m.a. kjörnir fulltrúar, starfsfólk sveitarfélagsins og nemendur í 5.-7. bekk Þjórsárskóla sem sungu fyrir viðstadda.
Einnig tóku þátt fulltrúar fjölmargra hagaðila sem samhliða skrifuðu undir samkomulag við Skeiða- og Gnúpverjahrepp vegna innleiðingar HSAM á svæðinu n.t.t. Þjórsárskóli, Lionsklúbburinn Dynkur, Búnaðarfélag Gnúpverja, Kvenfélag Gnúpverja, Sóknarnefnd Stóra-Núpskirkju og Ungmennafélag Skeiðamanna.
Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að vinna með markvissum hætti að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Starf Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla, Heilsueflandi vinnustaða og heilsuefling eldri borgara er mikilvægur liður í starfi Heilsueflandi samfélags. Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna sveitarfélög meðal annars að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Skeiða- og Gnúpverjahreppur er 34. sveitarfélagið sem gerist Heilsueflandi samfélag og búa nú um 93,5% landsmanna í slíku samfélagi.
Nánar um Heilsueflandi samfélag
Nánar um lýðheilsuvísa
Nánar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags