Siðferðileg gildi og forgangsröðun rædd á heilbrigðisþingi 15. nóvember
7. nóvember 2019
Heilbrigðisráðherra boðar til heilbrigðisþings á hótel Hilton Reykjavik Nordica 15. nóvember kl. 8.30 – 16.00. Heilbrigðisþingið er haldið undir yfirskriftinni „Siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.“
Heilbrigðisráðherra boðar til heilbrigðisþings á hótel Hilton Reykjavik Nordica 15. nóvember kl. 8.30 – 16.00. Heilbrigðisþingið er haldið undir yfirskriftinni „Siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.“ Þingið er liður í vinnu sem framundan er við gerð þingsályktunartillögu um þessi mál sem ráðherra hyggst leggja fyrir Alþingi næsta vor. Alma D. Möller landlæknir og Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri sviðs áhrifaþátta heilbrigðis við hjá embætti landlæknis eru á meðal þeirra sem flytja erindi.
Tengist áherslum heilbrigðisstefnu
Umfjöllun um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu tengist áherslum sem fram koma í heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Líkt og þar segir standa stjórnendur og starfsfólk heilbrigðiskerfisins daglega frammi fyrir fjölda erfiðra ákvarðana sem varða líf og heilsu fólks og forgangsröðun er því liður í daglegum störfum þess. Bent er á að auknir möguleikar við greiningu og meðferð sjúkdóma með sívaxandi kostnaði gera auknar kröfur um að ríkið sem greiðandi heilbrigðisþjónustunnar forgangsraði því fjármagni sem er til umráða. Mikilvægt sé að forgangsröðun af hálfu stjórnvalda byggi á skýrum viðmiðum og siðferðilegum gildum sem öllum eru kunn og ljós þegar erfiðar ákvarðanir eru teknar, hvort sem um er að ræða heilbrigðisstarfsfólkið eða sjúklingana. Um þessi gildi þurfi að ríkja almenn sátt í samfélaginu.
Í heilbrigðisstefnunni eru sett fram eftirfarandi þrjú grundvallarviðmið sem talinn er samhljómur um þegar horft er til umræðunnar hér á landi og hjá nágrannaþjóðunum:
Mannhelgi; virðing fyrir mannlegri reisn
Allir menn eru jafnir og eiga sama rétt til verndar lífs og viðhalds heilbrigðis.
Þörf og samstaða
Þeir sem eru í brýnustu þörfinni fyrir heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma skulu ganga fyrir.
Gæta skal að rétti þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu, af hvaða ástæðum það er, og geta því ekki sjálfir leitað réttar síns eða varið hann.
Hagkvæmni og skilvirkni
Heilbrigðisþjónustan skal vera markviss, árangursrík og eins hagkvæm og nokkur kostur er.
Hægt er að fylgjast með fréttum um þingið í aðdraganda þess á fésbók.
Heilbrigðisþingið er öllum opið og aðgangur ókeypis en mikilvægt er að gestir skrái þátttöku sína á www.heilbrigdisthing.is.
Bein útsending verður frá þinginu með streymi á vefnum www.heilbrigdisthing.is fyrir þá sem ekki hafa tök á að mæta.