Ójöfnuður í heilsu. Ástæður og árangursríkar aðgerðir til úrbóta
2. júní 2021
Heilsa og vellíðan jarðarbúa hefur batnað undanfarna áratugi. Enn er þó til staðar ójöfnuður í heilsu eftir löndum, svæðum og þjóðfélagshópum, þ.á.m. á Íslandi. Fer þessi ójöfnuður síst minnkandi. Þetta hefur komið fram í greiningarvinnu alþjóðastofnana, rannsóknum fræðafólks og greiningum embættis landlæknis á gögnum rannsóknarinnar Heilsa og líðan Íslendinga.
Heilsa og vellíðan jarðarbúa hefur batnað undanfarna áratugi. Enn er þó til staðar ójöfnuður í heilsu eftir löndum, svæðum og þjóðfélagshópum, þ.á.m. á Íslandi. Fer þessi ójöfnuður síst minnkandi. Þetta hefur komið fram í greiningarvinnu alþjóðastofnana, rannsóknum fræðafólks og greiningum embættis landlæknis á gögnum rannsóknarinnar Heilsa og líðan Íslendinga.
Árið 2019 samþykktu aðildarlönd Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar ályktun um að vinna hraðar að því að auka jöfnuð í heilsu þar sem enginn væri skilinn eftir. Aðildarlönd voru hvött til að vinna ötullega að innleiðingu ályktunarinnar í hverju landi fyrir sig. Með nýrri skýrslu, Ójöfnuður til heilsu á Íslandi. Ástæður og árangursríkar aðgerðir, leggur embætti landlæknis sitt lóð á vogarskálarnar til þess að vinna megi skipulega að því að auka heilsufarslegan jöfnuð á Íslandi. Í skýrslunni er brugðið upp mynd af stöðu ójöfnuðar í heilsu hér á landi, en almennt má segja að þeir sem hafa styttri skólagöngu að baki eða eiga erfiðara með að ná endum saman búa almennt við verri heilsu og lifnaðarhætti heldur en þeir sem hafa verið lengur í skóla eða búa við betri efnahag.
Rannsóknir sýna að heilsa og vellíðan mótast af margskonar einstaklingsbundnum, félagslegum, efnahagslegum og menningarlegum þáttum auk umhverfisþátta og þátta af stjórnmálalegum toga.
Þess vegna er ekki hægt að ná árangri í því að auka jöfnuð í heilsu nema til komi þátttaka og samstarf ólíkra hagsmunaaðila. Öll svið hins opinbera verða að koma þar að og bera sameiginlega ábyrgð á því að skapa þegnunum heilsusamlegt umhverfi. Rannsóknir sýna að mestum breytingum á heilsufarslegum ójöfnuði má ná fram með stjórnvaldsaðgerðum sem eru utan heilbrigðiskerfisins.
Í skýrslunni eru einnig kynntar þær aðgerðir sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur mikilvægastar til að stuðla að jöfnuði í heilsu.
Sigríður Haraldsd. Elínardóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsingasviðs, netfang: shara@landlaeknir.is
Hildur Björk Sigbjörnsdóttir, verkefnisstjóri heilbrigðisupplýsingasviði
Jón Óskar Guðlaugsson, verkefnisstjóri heilbrigðisupplýsingasviði