Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Ný skýrsla um sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir ungs fólks á Íslandi

7. september 2018

Embætti landlæknis hefur gefið út skýrslu um sjálfsskaða, sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal ungs fólks í framhaldsskólum þar sem farið er yfir þróun mála frá árinu 2000.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Embætti landlæknis hefur gefið út skýrsluna Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna þar sem farið er yfir þróun mála frá árinu 2000. Rannsóknir og greining vann skýrsluna fyrir embættið sem byggir á gögnum Ungt fólk rannsóknanna, en þeim hefur verið safnað á meðal íslenskra framhaldsskólanema á árunum 2000, 2004, 2007, 2010, 2013 og 2016.

Niðurstöður skýrslunnar sýna að sjálfsskaði stúlkna hefur aukist frá árinu 2000 og sjálfsvígshugsanir sömuleiðis. Fjöldi ungmenna sem segjast hafa gert tilraun til sjálfsvígs hefur lítið breyst frá árinu 2000 en þó má sjá aukingu meðal stúlkna á síðustu árum. Tölur Embættis landlæknis sýna hins vegar að sjálfsvígstíðni meðal ungs fólks á aldrinum 15-19 ára hefur farið lækkandi frá árinu 2000.

Niðurstöður skýrslunnar sýna ennfremur að stór hluti ungmenna, eða 55% stelpna og 38% stráka, þekkir einhvern sem hefur reynt sjálfsvíg og 1 af hverjum 10 hefur átt góðan vin eða einhvern nákominn sem fallið hefur fyrir eigin hendi. Tæplega helmingur stúlkna og rúmlega þriðjungur drengja í framhaldsskólum hefur upplifað að einhver segi þeim frá því að viðkomandi sé að hugleiða sjálfsvíg. Þá sýna niðurstöður að sterkustu sjálfstæðu áhættuþættir sjálfsvígstilrauna meðal ungs fólks í framhaldsskólum eru sjálfsvígstilraun vinar eða einhvers nákomins, þunglyndi, reiði, kynferðisofbeldi og kannabisneysla.

Þessar niðurstöður undirstrika mikilvægi þess að innleiða tillögur starfshóps um aðgerðir til að fækka sjálfsvígum á Íslandi sem skilað var til heilbrigðisráðherra í vor.

Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar, svið áhrifaþátta heilbrigðis
Salbjörg Bjarnadóttir, verkefnastjóri, svið eftirlits og gæða