Notkun ljósabekkja minnkar jafnt og þétt
13. desember 2018
Notkun Íslendinga á ljósabekkjum hefur minnkað jafnt og þétt á síðastliðnum árum. Um 8% fullorðinna fóru í einhverjum mæli í ljósabekk á síðustu 12 mánuðum en árið 2004 var hlutfallið um 30%.
Notkun Íslendinga á ljósabekkjum hefur minnkað jafnt og þétt á síðastliðnum árum. Um 8% fullorðinna fóru í einhverjum mæli í ljósabekk á síðustu 12 mánuðum en árið 2004 var hlutfallið um 30%.
Kannanirnar sýna einnig að ljósabekkjanotkun ungmenna, 18–24 ára, hefur minnkað töluvert undanfarin ár. Árið 2004 höfðu um 38% aðspurðra ungmenna á aldrinum 12-14 ára notað ljósabekki í einhverjum mæli síðustu 12 mánuði. Árið 2018 hafði um 13% aðspurðra 18-24 ára ungmenna notað ljósabekki.
Capacent-Gallup hefur frá árinu 2004 fylgst með ljósabekkjanotkun með árlegum könnunum sem gerðar eru fyrir hönd samstarfshóps Geislavarna ríkisins, Embætti landlæknis, húðlækna og Krabbameinsfélagsins.
Sjá niðurstöður könnunarinnar 2018.
Skaðleg áhrif ljósabekkja eru vel þekkt
Notkun ljósabekkja til sólbaða í fegrunarskyni hefur valdið aukinni tíðni húðkrabbameina undanfarna áratugi og því er nauðsynlegt að takmarka notkun þeirra sem mest. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) fyrir árið 2017.
Einnig hefur aldur þeirra sem fá slík krabbamein í fyrsta sinn lækkað. Notkun ljósabekkja er talin valda meira en 10 þúsund tilfellum af sortuæxlum árlega og meira en 450 þúsund tilfellum af öðrum húðkrabbameinum í Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu samanlagt.
Í skýrslu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er einnig fjallað um ýmsar aðgerðir sem aðildarríkin hafa gripið til í þeim tilgangi að takmarka notkun ljósabekkja. Þar má nefna innleiðingu aldursmarka og ýmsar kröfur sem gerðar eru til þeirra sem reka sólbaðsstofur. Áhersla er lögð á fræðslu og margvíslega miðlun upplýsinga um skaðleg áhrif af notkun ljósabekkja í fegrunarskyni.