Norðurþing bætist í hóp heilsueflandi samfélaga
2. mars 2018
Norðurþing hefur nú gerst aðili að Heilsueflandi samfélagi en Birgir Jakobsson, landlæknir og Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings skrifuðu undir samning þess efnis í gær.
Norðurþing hefur nú gerst aðili að Heilsueflandi samfélagi en Birgir Jakobsson, landlæknir og Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings skrifuðu undir samning þess efnis í gær. Undirskriftin fór fram í tengslum við málþing sem haldið var á Húsavík undir yfirskriftinni „Gerum gott samfélag betra" þar sem fjallað var um jákvæðan aga og forvarnir í sveitarfélaginu. Landlæknir og Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar héldu erindi á málþinginu.
Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum.
Með undirritun samningsins bætist Norðurþing í hóp þeirra sveitarfélaga sem skuldbinda sig til þess að efla heilsu og vellíðan íbúa sinna á markvissan hátt. Alls taka sextán sveitarfélög nú formlega þátt í starfi Heilsueflandi samfélags og fleiri eru í startholunum.
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis
Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags