Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Niðurstöður rannsóknar um svefnvenjur meðal framhaldsskólanema 2018 kynntar við afhendingu Gulleplisins 2019

15. apríl 2019

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti sl. föstudag Fjölbrautaskólanum í Breiðholti (FB), Gulleplið 2019, hvatningarverðlaun Heilsueflandi framhaldsskóla fyrir framúrskarandi heilsueflingarstarf. Við sama tækifæri voru kynntar niðurstöður rannsóknar Rannsóknar og greiningar um svefnvenjur framhaldsskólanema sem framkvæmd var á árinu 2018.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Niðurstöður sýna að um 70% framhaldsskólanema sofa of lítið hér á landi. Forsetinn ítrekaði mikilvægi svefns til að halda góðri heilsu og efla vellíðan meðal ungs fólks sem og annarra Íslendinga og sagði sögur af góðráðum svefnleysis fyrr á árum og sló á létta strengi.

Neysla orkudrykkja og svefnvenjur
Margrét Lilja Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu sagði frá niðurstöðum úr framhaldsskólarannsóknum en þar kom fram meðal annars að einstaklingar sem sofa um 7 klukkustundir eða minna, drekka 4 orkudrykki eða meira, sem innihalda koffín, í um 78% tilfella, þar af sofa 34% þeirra í minna en 6 klukkustundir.

Líkamleg og andleg heilsa
Þeir sem sofa 7 klukkustundir eða minna meta líkamlega heilsu sína sæmilega í 66% og lélega í 17% tilfella. Ef skoðuð er andleg heilsa þá segja 88% þeirra sem sofa um 7 klukkustundir eða minna hana vera sæmilega og 66% segja hana vera lélega. Eftir því sem framhaldsskólanemar sofa minna, því lélegri meta þeir andlega heilsu sína en einnig meta 19% þeirra sem sofa meira en 9 klukkustundir á sólarhring, andlega heilsu sína lélega.

Áhorf, tölvuleikir og samfélagsmiðlar
Þá var greint frá því að þeir sem horfa á myndir, þætti eða myndbönd í 4 klukkustundir eða lengur á dag, sofa minna en þeir sem horfa minna en 4 klukkustundir á dag. Sama á við um þá sem spila tölvuleiki á netinu en þar má sjá að þeir sem sofa um 8 klukkustundir á dag eyða í 15% tilfella 4 klukkustundum eða meira í tölvuleiki. Þeir sem sofa minna eyða talsvert meiri tíma í tölvuleiki á netinu. Þeir sem eru á samfélagsmiðlum í 4 klukkustundir eða meira á dag, sofa minna en þeir sem eyða færri klukkustundum á miðlunum og má í því sambandi nefna að þeir sem sofa um 6 klukkustundir eða minna, verja í 42% tilfella 4 klukkustundum eða meira í samfélagsmiðla.

Notkun svefnlyfja
Nemendur sem sofa um 6 klukkustundir eða minna hafa í 49% tilfella notað svefntöflur einu sinni eða oftar um ævina. Niðurstöðurnar sýna einnig að þeir sem sofa minna en 6 klukkustundir á nóttu eru líklegri til að reykja daglega, hafa orðið ölvaðir oftar en einu sinni á síðustu 30 dögum fyrir könnunina og hafa notað marijúana einu sinni eða oftar um ævina. Þá vekur athygli að þeir nemendur sem vinna meira með skóla, sofa minna.

Nota orkudrykki til að halda virkni í gegnum daginn
Áður en forsetinn afhenti stjórnendum Heilsueflandi framhaldsskólans BF, Gulleplið 2019 hélt Dr. Erla Björnsdóttir erindi um mikilvægi svefns fyrir góða andlega og líkamlega heilsu, frammistöðu og vellíðan en Erla hefur sérhæft sig í svefnrannsóknum.

Eins og niðurstöður Rannsókna og greiningar gefa til kynna þá nýta margir ósofnir framhaldsskólanemar sér orkudrykk/i til að halda virkni í gegnum daginn. Hún sagði frá því að mikil notkun orkudrykkja geri það að verkum að líkaminn fái gerviorku sem leiði til þess að hann fær ekki þá hvíld sem hann kallar eftir með þreytueinkennum. Líkaminn þurfi undirbúning í formi svefns fyrir hvern dag og hefur það áhrif á frammistöðu, sé þeim undirbúningi ekki sinnt.

Að sama skapi hefur skjánotkun rétt fyrir svefninn truflandi áhrif og mælti Erla fyrir góðum ráðum til að fá góðan svefn og auka þar með vellíðan. Svefn er nauðsynlegur til að undirbúa sál og líkama fyrir góða virkni næsta dag og ekki sé hægt að bæta upp svefnleysi yfir virka daga með því að sofa meira um helgar og miklar vökur um helgar geti orðið til þess að þreyta framhaldsskólanema sé áberandi fyrri hluta skólavikunnar.

Bent hefur verið á að Heilsueflandi framhaldsskólar geta stutt við bættar svefnvenjur og aukinn svefn nemenda með ýmsum leiðum s.s.

  • Að kenna um áhrif svefns á dægursveiflu, líkamsstarfsemi, frammistöðu, heilsu og líðan.

  • Að stuðla að samstarfi heimila og skóla varðandi góðar svefnvenjur.

  • Að seinka skólabyrjun að morgni.

  • Að samstilla viðburði á vegum skólans við skólabyrjun þannig að nemendur eigi ávallt kost á fullum svefni.

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hlaut Gulleplið 2019 vegna markvissrar áætlunar til að bæta svefn og svefnvenjur nemenda sinna. Í skólanum hefur markviss fræðsla átt sér stað fyrir nemendur um mikilvægi svefns fyrir ungt fólk. Einnig eru gerðar tilraunir með upphaf skólabyrjunar og skólinn býður upp á sveigjanleika fyrir þá nemendur sem á þurfa að halda. Skólinn vann markvisst að því að taka upp þá þætti sem taldir eru skipta hvað mestu máli til að bæta svefnvenjur nemenda. Áhersla er lögð á svefn og svefnvenjur í foreldrasamstarfi, að nemendum sé gefinn kostur á að hefja skóladaginn síðar í samráði við námsráðgjafa og tekur þannig tillit til einstaklingsbundinna þarfa. Þá er nemendum gefið frí í fyrsta tíma eftir skólaball þannig að þau nái átta tíma svefn þrátt fyrir skólaskemmtun.

-------------------------------------

Nánar um stuðning við svefn og svefnvenjur í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti úr umsókn frá skólanum.

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hefur unnið markvisst að sameiginlegri forvarnarstefnu Félags íslenskra framhaldsskóla frá árinu 2014. Markmið stefnunnar er:Ungt fólk á framhaldsskólaaldri hefur sterka sjálfsmynd, ber ábyrgð á eigin heilsu, forðast að nota áfengi, tóbak eða vímuefni, hugar að næringu, hreyfingu og svefni, hefur heilbrigða sýn á sig sem kynveru og gætir að gagnkvæmri virðingu í samskipum við annað fólk.

Áhersla hefur verið lögð á mikilvægi svefns fyrir líðan nemenda og námsárangur með eftirfarandi hætti í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti:

  1. Stuðlað að samstarfi heimilis og skóla um góðar svefnvenjur. Á kynningarfundum með foreldrum nýnema er talað um mikilvægi svefns en á þeim fundi er einnig rætt um lífsgleði og félagstengsl, heilbrigt líferni sem felast í næringu, hreyfingu, svefni og virkri þátttöku ungs fólks í lífinu. Foreldrum er bent á að tryggja að ungmenni fái 8 tíma svefn og þau upplýst um að ungt fólk í framhaldsskólum á Íslandi fari almennt seint að sofa og mörg/flest sofa ekki nóg.

  2. Fjallað er um áhrif svefns á dægursveiflu, líkamsstarfsemi, frammistöðu og heilsu og líðan. Forvarnadagurinn 2015 var nýttur til að fá dr. Erlu Björnsdóttur sérfræðing til að ræða um svefn og svefnvenjur. Áhuginn á efninu er mikill en skortur er á efni til að fræða nemendur. Áhugi er fyrir því að fá slíkt fræðsluefni fyrir framhaldsskólanemendur.

  3. Seinkun á skólabyrjun að morgni. Nemendur voru spurðir hvort þeir vildu seinka skólabyrjun sem var kl. 8.15 sem þeir vildu og nú hefst kennsla kl. 8.30. Síðan þá hafa verið gerðar reglulegar kannanir um skólabyrjun fyrir kennara og nemendur og unnið áfram að því að skoða hvort seinka eigi skólabyrjun enn frekar.

  4. Gefum nemendum frí í fyrsta tíma eftir skólaball. Þeir nemendur sem sækja skólaböll fá frí í fyrsta tíma daginn eftir þó að þeir falli ekki niður. Ástæðan fyrir því að skólinn fellir ekki niður tíma er sú að hann er fjölmennur og í honum eru nemendur á ýmsum aldri. Því eru ekki nærri allir sem sækja skólaböll á vegum skólans.

  5. Nemendum er stundum gefinn kostur á að hefja skóladaginn síðar. Sveigjanleiki áfangakerfisins gerir stjórnendum skólans kleift að aðlaga stundatöflu að nemendum sem eiga erfitt með að vakna á morgnana og þeim er því gefinn kostur í samráði við námsráðgjafa að hefja skóladaginn kl. 9.50.

Starfsfólk Embættis landlæknis hvetur alla framhaldsskóla að skoða hvað þeir geta gert til að stuðla að heilbrigðum svefnvenjum nemenda sinna og óskar Fjölbrautaskólanum í Breiðholti til hamingju með Gulleplið.

Nánari upplýsingar veitir:
Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir, verkefnisstjóri Heilsueflandi framhaldsskóla, s: 863-3631