Námskeið fyrir kennara í kennslu geðræktarefnisins Vinir Zippýs 7. september
22. ágúst 2018
Námskeið fyrir leik- og grunnskólakennara í kennslu geðræktarefnisins Vinir Zippýs verður haldið þann 7. september nk. kl. 10:00 – 16:30 á Hótel Reykjavík Centrum.
Námskeið fyrir leik- og grunnskólakennara í kennslu geðræktarefnisins Vinir Zippýs verður haldið þann 7. september nk. kl. 10:00 – 16:30 á Hótel Reykjavík Centrum, Aðalstræti 16 í Reykjavík. Námskeiðið og námskeiðsgögn eru kennurum að kostnaðarlausu en athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður.
Námskeiðið er því miður orðið fullt en hægt er að skrá sig á biðlista hjá Sigrúnu Daníelsdóttur, verkefnisstjóra geðræktar, netfang sigrun@landlaeknir.is. Mögulega verður öðru námskeiði bætt við ef margir bíða.
Vinir Zippýs er námsefni sem er ætlað fyrir börn á aldrinum 5–7 ára. Það miðar að því að auka félagsfærni þeirra, getu til að skilja og tjá eigin tilfinningar, finna heppilegar lausnir á vanda og takast á við mótlæti. Námsefnið er byggt upp af sex námsþáttum sem hver inniheldur fjórar kennslustundir.
Kennslustundunum er lýst með nákvæmum hætti í vönduðum kennslugögnum sem fylgja námskeiði.
Rannsóknir benda til þess að kennsla í Vinum Zippýs hafi jákvæð áhrif á hæfni nemenda til að takast á við vandamál og erfiðleika auk jákvæðra áhrifa á tilfinningalæsi, samvinnu, sjálfstæði og upplifun af félagslegum stuðningi.
Könnun á vegum Embættis landlæknis meðal íslenskra grunnskóla árið 2012 sýndi að af þeim sem höfðu nýtt sér námsefnið greindu langflestir frá ánægju með það, en 84% töldu frekar eða mjög mikla ánægju ríkja með námsefnið meðal kennara og 79% töldu frekar eða mjög mikla ánægju ríkja meðal nemenda. Um helmingur (48%) taldi námsefnið hafa auðveldað skólastarfið og nefndu flestir að samskipti milli nemenda væru betri auk þess sem börnin ættu auðveldara með að tjá sig.
Frekari upplýsingar veitir
Sigrún Daníelsdóttir, verkefnisstjóri geðræktar
sigrun@landlaeknir.is