Málþing Heilsueflandi grunnskóla - upptökur
29. janúar 2018
Upptökur málþings Heilsueflandi grunnskóla sem haldið var í nóvember, er nú hægt að nálgast á vef verkefnisins.
Málþing Heilsueflandi grunnskóla var haldið 10. nóvember s.l. í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Erindin sem flutt voru á málþinginu voru tekin upp og er nú hægt að nálgast þau á vefsvæði Heilsueflandi grunnskóla. Skráning á málþingið var góð en rúmlega 100 manns tóku þátt.
Boðið var upp á erindi um stöðu Heilsueflandi grunnskóla í dag og hvað er framundan. Skólastjóri Oddeyrarskóla sagði frá reynslu þeirra í að innleiða Heilsueflandi grunnskóla og skólastjóri Austurbæjarskóla sagði frá skipulagi á nýafstöðnu nemendaþingi sem er ein af þeim aðferðum sem nýta má við innleiðingu á Heilsueflandi grunnskóla. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis flutti ávarp og Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor við Menntavísindasvið og deildarforseti íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar sagði frá nýrri námsleið í heilsueflingu og heimilisfræði.
Eftir hlé var boðið upp á málstofur með dagskrá um ýmsa áhersluþætti er lúta að heilsueflingarstarfi í grunnskóla. Í fyrri málstofunum var boðið upp á; efni tengt hreyfingu og virkni í skólastarfi, áherslur í heilsueflingu starfsfólks, kynningu á heilsuvernd skólabarna og kynningu á DAM sem áhugaverð nálgun að geðrækt í skólum. Í seinni málstofunum var boðið upp á kynningu á; verkfærinu www.heilsueflandi.is fyrir Heilsueflandi grunnskóla, námsefninu Örugg saman, verkefninu Tóbakslaus bekkur og stigskiptum leiðum til að styðja við jákvæða hegðun nemenda.
Hér að neðan má finna upptöku og dagskrá málþingsins: Sjá upptöku.
Dagskrá málþingsins.
Ráðstefnur og málþing Heilsueflandi grunnskóla.
Nánari upplýsingar um Heilsueflandi grunnskóla má finna á heimasíðu embættis landlæknis.
Ingibjörg Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Heilsueflandi grunnskóla