Lokaráðstefna um UPRIGHT verkefnið
26. nóvember 2021
Þann 1. desember nk. frá kl. 8:30-15:30 fer fram lokaráðstefna um UPRIGHT verkefnið sem Embætti landlæknis hefur tekið þátt í síðastliðin fjögur ár. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Creating a Culture of Wellbeing“ og á henni kynnast þátttakendur m.a. UPRIGHT námsefninu og niðurstöðum innleiðingar námsefnisins í skólum í 5 Evrópulöndum þar með talið á Íslandi.
Þann 1. desember nk. frá kl. 8:30-15:30 fer fram lokaráðstefna um UPRIGHT verkefnið sem Embætti landlæknis hefur tekið þátt í síðastliðin fjögur ár. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Creating a Culture of Wellbeing“ og á henni kynnast þátttakendur m.a. UPRIGHT námsefninu og niðurstöðum innleiðingar námsefnisins í skólum í 5 Evrópulöndum þar með talið á Íslandi. Ráðstefnan fer fram á netinu, er opin öllum og þátttakendum að kostnaðarlausu. Tungumál ráðstefnunnar er enska. Mikilvægt er að þeir sem ætla að taka þátt skrái sig.
Aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni eru Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis sem heldur erindi um vellíðan ungmenna, Sue Roffey, prófessor við Exeter og Western Sydney University sem heldur erindi um vellíðan kennara og Ilona Boniwell, forstöðumaður jákvæðrar sálfræði við Anglia Ruskin háskólann og prófessor við University of East London í Englandi, kennari við l'Ecole Centrale Paris og forstöðumaður Positran sem verður með erindi um seiglu (e. Resilience).
UPRIGHT er samevrópskt rannsóknarverkefni styrkt af H2020 rammaáætlun ESB fyrir rannsóknir og nýsköpun. Menntavísindasvið Háskóla Íslands ásamt embætti landlæknis taka þátt í verkefninu hér á landi sem staðið hefur yfir frá árinu 2018 og lýkur nú í lok þessa árs. Meginmarkmið UPRIGHT verkefnisins er að stuðla að vellíðan unglinga með því að efla seiglu þeirra og getu til að takast á við áskoranir og krefjandi verkefni unglingsáranna. Jafnframt er verkefninu ætlað að stuðla að góðri líðan í skólasamfélaginu í heild þar sem kennarar og annað starfsfólk skólanna ásamt foreldrum gegna lykilhlutverki.
Frekari upplýsingar um UPRIGHT verkefnið og viðburðinn er að finna á heimasíðu verkefnisins. Frá og með janúar 2022 veður námsefnið aðgengilegt öllum á sjö tungumálum (ensku, íslensku, dönsku, ítölsku, pólsku, spænsku og basknesku) á heimasíðu verkefnisins.
Nánari upplýsingar veitir
Sólveig Karlsdóttir verkefnisstjóri
Netfang: Solveig.Karlsdottir@landlaeknir.is