Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Kjaradeila ríkis og ljósmæðra – mál er að linni

16. júlí 2018

Staðan í kjaradeilu ríkis og ljósmæðra er alvarleg og mikið áhyggjuefni. Embætti landlæknis hefur fylgst með starfseminni á Landspítalanum síðan deilan hófst.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Staða mála

Staðan í kjaradeilu ríkis og ljósmæðra er alvarleg og mikið áhyggjuefni. Embætti landlæknis hefur fylgst með starfseminni á Landspítalanum síðan deilan hófst. Landlæknir og starfsmenn eftirlits hafa setið svonefnda stöðufundi á kvennadeild Landspítala og þannig verið í beinu sambandi við stjórnendur og starfsfólk.

Ljóst er að vandasamt er að skipuleggja starfsemina þannig að þjónustan skerðist sem minnst og að öryggis skjólstæðinga sé gætt eins og frekast er unnt. Það hefur þó gengið vonum framar og ber að þakka vandaðri og ítarlegri aðgerðaáætlun Landspítalans og góðri samvinnu milli deilda spítalans. Þá hefur samvinna við aðra þjónustuaðila og stofnanir utan Landspítalans verið til fyrirmyndar og aðdáunarvert hvernig allir hjálpast að.

Lykillinn að góðu skipulagi eru áðurnefndir stöðufundir sem haldnir eru tvisvar til þrisvar á dag. Þar er starfsemin skipulögð eins og hægt er, dag fyrir dag, vakt fyrir vakt, verkefnum er útdeilt og forgangsraðað. Útskriftum hraustra mæðra og nýbura er flýtt. Ljósmæður sem annars gegna öðrum störfum á spítalanum sem og stjórnendur standa vaktir. Valkvæðum (ekki bráðum) keisaraaðgerðum og fleiri verkefnum er beint á sjúkrahúsin á Akranesi og Akureyri og einnig á aðrar stofnanir. Að sögn starfsmanna hafa konur tekið slíku af yfirvegun og ljóst að þær sýna aðstæðum mikinn skilning. Þeim, sem og öllum þeim starfsmönnum sem þurfa að starfa við þessar fordæmalausu aðstæður ber að þakka. Landlæknir telur þó mikilvægt að brýna fyrir konum að þær hiki ekki við að leita eftir þjónustu á Landspítala ef þörf krefur þannig að þær séu ekki, af tillitssemi vegna stöðunnar, sjálfar að meta aðstæður sem þær hafa ekki forsendur til að meta.

Það er mat Embættis landlæknis að ekki megi mikið út af bregða til að hætta skapist. Ekki er vitað hvenær næsti álagstoppur kemur - en slíkir toppar koma. Aldrei er hægt að sjá alla hluti fyrir, það er hið óvænta sem er mesta áskorunin fyrir starfsfólkið í heilbrigðiskerfinu. Augljóst er að róðurinn þyngist sífellt eftir því sem tíminn líður. Bæði þreytast þeir sem þurfa að vinna langt umfram vinnuskyldu auk þess andlega álags sem fylgir slíkum aðgerðum, slíkt skal ekki vanmeta. Landlæknir hefur því mikinn skilning á því að fólk finni til vanmáttar og að stjórnendur Landspítala telji erfitt að tryggja öryggi nægjanlega vel við þessar erfiðu aðstæður. Því er nauðsynlegt að samningsaðilar leysi þessa deilu sem allra, allra fyrst.

Allir tapa

Eitt eru áhyggjur af því að tryggja þjónustu og öryggi sjúklinga til skemmri tíma litið. Annað áhyggjuefni eru þau langtímaáhrif sem óhjákvæmilega leiða af deilum sem þessari og eru skaðlegar heilbrigðiskerfinu til lengri tíma litið; fyrir því talar reynslan af verkföllunum 2014-2015.

Annars vegar er að þegar rót er komið á starfsfólk og það hefur sagt upp störfum þá kvarnast alltaf úr mönnun og einhverjir snúa ekki til baka þótt samningar náist. Staðan í heilbrigðiskerfinu er þannig að það má engan mann missa. Ljósmæður sinna fjölbreyttum og vaxandi verkefnum. Þær eiga stóran þátt í því að við Íslendingar erum með mæðra- og burðarmálsdauða eins og lægst þekkist.

Hins vegar skapar deila sem þessi mikla spennu milli aðila og langan tíma getur tekið að endurvekja traust og skapa aftur góðan starfsanda. Þannig tapa allir þegar deilan dregst á langinn og því er brýnt að henni ljúki sem fyrst.

Verkefni til framtíðar

Til framtíðar þyrfti að ráðast í flókið og stórt verkefni. Það er að ná sátt um stóru myndina í launasetningu mismunandi stétta, ekki síst innan heilbrigðiskerfisins. Það er nefnilega með öllu óásættanlegt fyrir hvorutveggja sjúklinga og aðra notendur heilbrigðisþjónustu sem og starfsfólk að staða sem þessi geti komið upp. Heilbrigðiskerfið er enn að glíma við afleiðingar verkfallanna 2014-2015, sem eru m.a. biðlistar, ónóg mönnun og óánægja vissra starfsstétta. Við ákvörðun launasetningar mismunandi starfsstétta ætti að styðjast við hlutlæg viðmið eins og unnt er, til dæmis lengd náms, ábyrgð og vinnuskipulag. Þá á kynbundinn launamunur auðvitað ekki að líðast og ber að útrýma nú þegar.

Ábyrgð aðila beggja vegna samningaborðs

Um miðja þessa viku tekur gildi yfirvinnubann ljósmæðra. Þó uppfærð aðgerðaráætlun vegna þess liggi ekki fyrir á þessari stundu eru allar líkur á að staðan verði enn erfiðari. Það er ekki boðlegt. Einhverjir hafa varpað fram þeirri spurningu hvort bregðast ætti við með lagasetningu. Það kann að leysa mönnun einhverra vakta til skemmri tíma litið. Líklegt er hinsvegar að lagasetning skapi enn meiri óánægju meðal ljósmæðra og bitni enn frekar á mönnun til lengri tíma litið.

Samninganefndirnar mega ekki gefast upp við það verkefni að ná saman, þar er mikil ábyrgð beggja vegna borðs og mikið í húfi. Báðir aðilar verða að hugsa lausnamiðað og koma sér upp úr þeim hjólförum sem deilan virðist föst í. Óásættanlegt er að láta tvær vikur líða milli funda, til þess er allt of mikið undir sem er heilsa mæðra og nýbura. Brýnt er að samninganefndir ríkis og ljósmæðra setjist saman að borðinu, gjarnan með aðkomu ríkissáttasemjara og standi ekki upp fyrr en búið er að leysa hnútinn og enda þessa deilu.

Embætti landlæknis, 16. júlí 2018
Alma D. Möller, landlæknir