Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Hvað er verið að gera á Íslandi til að hefta útbreiðslu hinnar nýju kórónaveiru (2019-nCoV).

24. janúar 2020

Í ljósi aukinnar útbreiðslu hinnar nýju kórónaveiru víða um heim þá hefur sóttvarnalæknir í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, hafið vinnu í samræmi við fyrirliggjandi viðbragðsáætlunum um alvarlega smitsjúkdóma

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Í ljósi aukinnar útbreiðslu hinnar nýju kórónaveiru víða um heim þá hefur sóttvarnalæknir í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, hafið vinnu í samræmi við fyrirliggjandi viðbragðsáætlunum um alvarlega smitsjúkdóma, CBRNE og viðbragðsáætlunum um sóttvarnir á alþjóðaflugvöllum.

Í dag 24. janúar 2020 hefur sýkingin verið staðfest hjá 897 einstaklingum og 26 hafa látist. Auk þess hafa borist óstaðfestar fréttir um smit í nokkrum löndum Evrópu þ. á m. Skotlandi og Finnlandi.

Þrátt fyrir upplýsingar um aukna útbreiðslu hinnar nýju veiru þá eru ekki vísbendingar um að hún sé hættulegri en áður hefur verið talið.

Viðbrögð á Íslandi felast í eftirfarandi:

1. Aðgerðir á Keflavíkurflugvelli til að greina sýkta og hugsanlega smitaða einstaklinga

Farþegar á Keflavíkurflugvelli sem koma til landsins munu fá skilaboð þess eðlis að ef þeir eru með merki um öndunarfærasýkingu og hafa verið í Wuhan Kína á undangengnum 14 dögum eða hafa verið í samgangi við einstaklinga með grunaða eða staðfesta sýkingu, þá þurfi að gera á þeim læknisfræðilegt mat á Keflavíkurflugvelli. Framhald aðgerða ræðst af læknisfræðilegu mati en einangrun mun koma til greina.

Einnig verða einkennalausir farþegar sem hafa verið í Wuhan Kína á undangengnum 14 dögum eða verið í samgangi við einstaklinga með grunaða eða staðfesta sýkingu beðnir um að gefa sig fram. Þessir einstaklingar geta vænst þess verða settir í sóttkví í einhverja daga.

Þessar aðgerðir miða að því að finna sýkta og hugsanlega smitaða einstaklinga sem fyrst og forða þannig frekari útbreiðslu innanlands.

Ekki er talin ástæða til að hitamæla alla farþega eða leggja fyrir þá spurningalista á Keflavíkurflugvelli því slíkar aðgerðir hafa reynst bæði kostnaðarsamar og árangurslitlar.

2. Aðgerðir í heilbrigðiskerfinu á Íslandi

Allar heilbrigðisstofnanir á landinu hafa verið upplýstar um hina nýju veiru og þær hvattar til að uppfæra sínar viðbragðsáætlanir og huga að sínum viðbrögðum m.a. einangrunaraðstöðu. Gefnar verða út leiðbeiningar á heimasíðu embættis landlæknis til almennings um hvernig nálgast eigi heilbrigðisstofnanir ef grunur vaknar um sýkingu.

3. Upplýsingar til almennings og heilbrigðisstarfsmenn

Á heimasíðu embættis landlæknis hefur verið komið upp sérstakri síðu með upplýsingum og leiðbeiningum sem tengjast hinni nýju veiru, bæði fyrir almenning og heilbrigðisstarfsmenn. Þar munu verða birtar nýjustu fréttir um sýkinguna og leiðbeiningar uppfærðar eins og þurfa þykir.

Í samvinnu við ferðamálastofu verður upplýsingum um veiruna og aðgerðum gegn henni komið til ferðamanna á Íslandi.

Nánari upplýsingar veitir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í síma 663-3624 og í gegnum netfangið kjartanh@landlaeknir.is

Sóttvarnalæknir