Hvað ef nánustu aðstandendur eru ósammála um líffæragjafir?
12. desember 2018
„Hjón sem ég þekki segjast vera ósammála um líffæragjafir. Stæðu þau frammi fyrir slíku vegna barns er annað þeirra fylgjandi líffæragjöf en hitt er andvígt. Hvort þeirra ræður?"
„Hjón sem ég þekki segjast vera ósammála um líffæragjafir. Stæðu þau frammi fyrir slíku vegna barns er annað þeirra fylgjandi líffæragjöf en hitt er andvígt. Hvort þeirra ræður?"
Spurninguna lagði starfsmaður Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í dag fyrir Jórlaugu Heimisdóttur, verkefnisstjóra hjá landlækni, og Runólf Pálsson, lækni á Landspítala, á hádegisfundi um Við gefum líf-verkefnið. Þau voru frummælendur og kynntu ýmsar hliðar líffæragjafa og líffæraígræðslu í tilefni af breyttum lögum sem taka gildi um áramótin og kveða á um að allir verði sjálfkrafa líffæragjafar, að undanskildum þeim sem skráð sérstaklega andstöðu við að gefa líffæri.
Á fundinum komu fram áleitnar spurningar sem ekki var einfalt að svara afdráttarlaust og einnig athugasemdir sem liggur beint við að fjalla frekar um og taka til greina eftir atvikum.
Starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar tekur þannig þátt í að móta og þroska líffæragjafaverkefnið innan ramma laganna sem um það gilda. Þannig er einmitt náð tilgangi kynningarfunda af þessu tagi í öllum heilbrigðisumdæmum landsins.
Vandamál frekar í orði en á borði
Hjón eru á öndverðum meiði, hvort ræður?
Fyrir liggur að foreldrar eru nánustu aðstandendur barna innan 18 ára aldurs í skilningi laga um líffæragjafir og maki er nánasti aðstandandi maka í hjónabandi eða sambúð. Í lagatextanum er hins vegar talað um nánasta aðstandanda (í eintölu) en ekki um aðstandendur – fleirtölu. Þetta gerir snúnara en ella að svara afdráttarlaust spurningu um hjónin sem eru á öndverðum meiði gagnvart líffæragjöf barns síns.
Runólfur Pálsson sagði að tilefni væri augljóslega til að leita svars lögfróðra við álitaefninu en hann sagðist ekki hnjóta um það sem vandamál í dagsins önn:
„Spurningar og vangaveltur um hver ráði á endanum ferðinni varðandi líffæragjafir koma alltaf upp í umræðum um málið en aldrei í veruleikanum!
Almennt séð hvet ég fólk til að ræða við sína nánustu um eigin viðhorf til líffæragjafa, svo þau liggi fyrir innan fjölskyldunnar.
Menn geta vissulega skráð andstöðu við að gefa líffæri en reynslan sýnir að margir gera það samt ekki. Það er því til góðs í öllu tilliti að ræða málin og við ræðum málin alltaf rækilega við aðstandendur.
Ég hvet líka þá sem eru efins um eða andvígir því að gefa líffæri að velta fyrir sér hvernig þeir myndu bregðast sjálfir við ef þeir stæðu frammi fyrir því að bjarga eigin lífi eða barns síns með því að þiggja líffæri. Ágætt er að velta upp þeirri spurningu gagnvart sjálfum sér."
Hjúkrunarfræðingar heilsugæslunnar skrái líka
„Hvers vegna gerið þið ráð fyrir því að einungis læknar heilsugæslunnar skuli aðstoða fólk við að skrá afstöðu sína til líffæragjafa í gagnagrunn landlæknis? Rökrétt er að hjúkrunarfræðingar heilsugæslustöðva skrái líka, þó ekki væri nema fyrir þá staðreynd að margir hafa engan heimilislækni."
Frummælendur á Suðurnesjafundinum fengu spurninguna/athugasemdina og greinilegt var að hljómgrunnur var fyrir sjónarmiði fyrirspyrjanda í salnum. Bent var á að einmitt hjúkrunarfræðingar í heilsugæslunni ættu heilsueflandi samtöl við fólkið í nærumhverfinu og þar kynnu líka viðhorf til líffæragjafa að koma til umræðu.
Jórlaug Heimisdóttir verkefnisstjóri lýsti yfir að ábendingin væri þörf og réttmæt og yrði tekin til greina.
Meistaraneminn orðinn lífeindafræðingur í HSS
Meðal fundarmanna á Suðurnesjum var Karen Rúnarsdóttir lífeindafræðingur á rannsóknastofnun Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Hún rannsakaði á sínum tíma viðhorf Íslendinga til ætlaðs samþykkis við líffæragjafir í meistaranámi sínu við Háskólann á Akureyri og var fyrsti höfundur að grein um verkefnið í Læknablaðinu, 10. tölublaði 2014.
Runólfur Pálsson læknir ritrýndi greinina á sínum tíma, hefur oft vitnað í meginniðurstöður hennar og hitti höfundinn þarna óvænt fyrir í Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Karen kannaði hug 18 ára og eldri Íslendinga á öllu landinu með póstlista frá Capacent Gallup og fékk 880 svör í 1.400 manna úrtaki, svarhlutfallið 63%.
Niðurstaðan var sú að yfir 80% svarenda voru hlynnt ætluðu samþykki (líkt og lög kveða á um sem taka gildi 1. janúar 2019). Konur voru enn jákvæðari en karlar (85% kvenna en 76% karla).
Ályktun verkefnisins:
„Íslendingar eru hlynntir löggjöf sem gerir ráð fyrir ætluðu samþykki en nokkur munur er á viðhorfi eftir kyni, aldri og hvort svarendur þekkja einhvern sem hefur þegið líffæri. Meirihluti vill gefa líffæri en þó er aðeins mjög lítill hluti skráður sem líffæragjafi."