Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Höldum áfram að læra og komum hlutum í verk

8. apríl 2020

Ef við erum undir miklu álagi þessa dagana er mikilvægt að auka það ekki enn frekar með nýjum verkefnum. Við þurfum hvert og eitt að finna hvað hentar okkur best og gæta þess að fá ekki samviskubit þótt við komum hlutum ekki í verk.

Höldum áfram að læra og komum hlutum í verk

Embætti landlæknis hefur tekið saman tíu heilræði sem byggja á niðurstöðum rannsókna á því hvað er mikilvægt að hafa í huga til að hlúa að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Heilræði dagsins í dag snýr að því hvernig við getum nýtt tímann við þær sérstöku aðstæður sem nú ríkja.

Sjáum tækifærin í þessum sérstöku aðstæðum og lærum eitthvað nýtt eða hugum að því sem við höfum ekki náð að koma í framkvæmd hingað til. Nú er tíminn til að læra nýtt tungumál eða elda nýjan rétt, lesa bækurnar sem bíða á náttborðinu, flokka myndasafnið eða taka til í geymslunni.

Ef við erum undir miklu álagi þessa dagana er mikilvægt að auka það ekki enn frekar með nýjum verkefnum. Við þurfum hvert og eitt að finna hvað hentar okkur best og gæta þess að fá ekki samviskubit þótt við komum hlutum ekki í verk. Ef okkur hins vegar vantar verkefni þá geta tækifæri til að læra eitthvað nýtt skapast á þessum tímum. 

Mannsheilinn er einstaklega aðlögunarfær og flókin viðfangsefni geta orðið nánast sjálfvirk þegar við erum orðin nógu þjálfuð í þeim. Til þess að halda huganum ferskum getur verið gott að stíga út fyrir rammann og takast á við önnur verkefni en við erum vön.

Þessu má líkja við gildi þess að stunda fjölbreytta hreyfingu. Ef við endurtökum alltaf sömu hreyfinguna án tilbreytingar byggjum við upp þrek og styrk í samræmi við þá hreyfingu. Þegar við svo bætum við nýjum styrktar- eða liðleikaæfingum byggir líkaminn sig upp á ný í takt við þá hreyfingu. Þannig er líklegt að við finnum hressilega fyrir harðsperrum þegar við göngum á fjall í fyrsta sinn, jafnvel þótt við séum vön því að fara daglega í sund. Nýjar æfingar kalla á virkni fleiri vöðva og það reynir á. Á sama hátt styrkjast nýjar taugabrautir í heilanum þegar við æfum nýja færni.

Þegar mikið er að gera getur verið erfitt að koma því við að læra og framkvæma nýja hluti og þá höldum við okkur gjarnan við það sem er fljótlegast. Við notum sama verklag í vinnunni og eldum sömu réttina þegar heim er komið. Um þessar mundir gefst mögulega kærkomið tækifæri til að læra að elda nýjan rétt frá grunni, kynna sér spennandi tungumál í gegnum smáforrit, taka til í geymslunni eða jafnvel flokka fjölskyldumyndirnar sem hafa beðið lengi eftir rétta tímapunktinum.

Gætum þess þó að skapa ekki nýja pressu – lærum að hlusta á líkamann og virðum það að kannski höfum við einmitt þörf fyrir hvíld og rólegheit. Það er líka hægt að halda huganum virkum með rólegum athöfnum eins og að lesa, púsla eða leysa þrautir. Við lærum svo lengi sem við lifum.

Nánari upplýsingar um hvað hægt er að gera til að bæta líðan má finna á Heilsuveru 

Lýðheilsusvið embættis landlæknis