Handbók fyrir viðbragðsaðila, hættuleg efni – CBRNE
23. janúar 2020
Í september 2019 var gefin út viðbragðsáætlun vegna CBRNE atvika. Viðbragðsáætlun CBRNE er ætlað að segja fyrir um skipulag og stjórn aðgerða þegar grunur vaknar um atvik af völdum eiturefna, sýkla (veira, baktería, sveppa, sníkjudýra) geislunar, kjarnorku eða sprengiefna, sem ætla má að geti leitt til lýðheilsuógnar.
Skammstöfun þessara þátta á ensku er CBRNE (Chemical, Biological, Radiological, Nuclear, Explosives). Um er að ræða samræmt verklag fyrir landið allt, loftrými þess og lögsögu í hafi.
Samhliða gerð þessarar áætlunar var unnið að þýðingu og staðfæringu á handbók CBRNE sem ætluð er sem stuðningur við þá sem fyrstir koma á vettvang þegar grunur vaknar um að þar hafi orðið CBRNE atvik. Þessi handbók er afurð norræns samstarfsverkefnis, sem byggir á Haga yfirlýsingunni og var gerð af fulltrúum slökkviliða, björgunarsveita, heilbrigðisstofnana og lögreglu í Svíþjóð og í Noregi. Íslenska útgáfan er aðgengileg á vef embættis landlæknis. Henni er ætlað að vera stuðningur við starf íslenskra viðbragðsaðila frá því útkall berst og þar til allra fyrstu verkefnum á vettvangi er lokið.
Nú er verið að dreifa prentaðri harðspjalda útgáfu í takmörkuðu upplagi til viðbragðsaðila til varðveislu í þeirra farartækjum.
Í náinni framtíð verður hægt að hlaða handbókinni niður í snjallsíma og fartölvur, án endurgjalds.
Sjá nánar: Handbók fyrir viðbragðsaðila, hættuleg efni CBRNE. 1. útg. 2019
Sóttvarnalæknir
Almannavarnadeild RLS
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun