Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Grímsnes- og Grafningshreppur gerist Heilsueflandi samfélag

16. september 2020

Grímsnes- og Grafningshreppur gerist Heilsueflandi samfélag

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Grímsnes- og Grafningshreppur varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) þann 14. september sl. þegar Ingibjörg Harðardóttir sveitarstjóri og Alma D. Möller landlæknir undirrituðu samning þess efnis í félagsheimilinu Borg. Viðstaddir voru m.a. kjörnir fulltrúar, starfsfólk sveitarfélagsins og nemendur í 2. bekk Kerhólsskóla sem sungu fyrir viðstadda.

Einnig tóku þátt fulltrúar fjölmargra hagaðila sem samhliða skrifuðu undir samkomulag við Grímsnes- og Grafningshrepp vegna innleiðingar HSAM á svæðinu n.t.t. Kerhólsskóli, Kvenfélag Grímsneshrepps, Lionsklúbburinn Skjaldbreiður, Leikfélag Sólheima, Skátafélag Sólheima, Íþróttafélagið Gnýr, Hjálparsveitin Tintron, Ungmennafélagið Hvöt, Leikfélagið á Borg, Skógræktarfélag Grímsnesinga, Sauðfjárræktarfélagið Barmur og hestamannafélagið Trausti.

Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að vinna með markvissum hætti að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Starf Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla, Heilsueflandi vinnustaða og heilsuefling eldri borgara er mikilvægur liður í starfi Heilsueflandi samfélags. Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna sveitarfélög meðal annars að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Grímsnes- og Grafningshreppur er 33. sveitarfélagið sem gerist Heilsueflandi samfélag og búa nú um 93,3% landsmanna í slíku samfélagi.

Nánar um Heilsueflandi samfélag

Nánar um lýðheilsuvísa

Nánar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Gígja Gunnarsdóttirverkefnissstjóri Heilsueflandi samfélags