Fréttatilkynning vegna COVID-19 á Íslandi kl. 17:00
4. mars 2020
Tíu einstaklingar greindust í dag með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, fjórir í morgun og sex nú síðdegis. Heildarfjöldi staðfestra smita er því 26. Þeir sem greindust í dag eru við góða heilsu en sýna þó einkenni (hósti, hiti, beinverkir). Allir þessir einstaklingar, þar á meðal þeir 10 sem greindust með veiruna í dag, voru á ferðalagi á Norður-Ítalíu eða Austurríki, og höfðu því fengið ráðleggingar um að vera í sóttkví.
Tíu einstaklingar greindust í dag með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, fjórir í morgun og sex nú síðdegis. Heildarfjöldi staðfestra smita er því 26. Þeir sem greindust í dag eru við góða heilsu en sýna þó einkenni (hósti, hiti, beinverkir). Allir þessir einstaklingar, þar á meðal þeir 10 sem greindust með veiruna í dag, voru á ferðalagi á Norður-Ítalíu eða Austurríki, og höfðu því fengið ráðleggingar um að vera í sóttkví. Erlendir ferðamenn á Íslandi, sem alla jafna hafa ekki snertingu við viðkvæma hópa, svo sem á sjúkrahúsum og öldrunarheimilum, sæta ekki sömu varúðaraðgerðum.
Íslensk stjórnvöld hafa gripið til hnitmiðaðra varúðarráðstafana til að koma í veg fyrir víðtæka útbreiðslu COVID-19-veirunnar. Engin smit hafa greinst sem rekja má til innlendra smitleiða.
Það blasir við að á Íslandi hafa greinst mörg tilfelli miðað við höfðatölu og í alþjóðlegum samanburði. Það er mikilvægt að hafa huga í þessu samhengi að hér hefur verið gripið til umfangsmikilla aðgerða, sem meðal annars taka til þess að setja fólk sem kemur frá áhættusvæðum í sóttkví, einangra veika, og taka sýni snemma hjá þeim sem fá einkenni, þótt væg séu. Það er mat sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra að það sé fyrst og fremst þessum aðgerðum að þakka að hér greinast smit snemma, með tilheyrandi fækkun á mögulegum smitleiðum í hverju staðfestu tilfelli.
Nú eru um 380 einstaklingar í sóttkví á Íslandi. Unnið er að því að auka afkastagetu í greiningu smita á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.
Samkomur
Í ljósi fjölmargra fyrirspurna, vill almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ítreka að ekki hefur verið lýst yfir samkomubanni af yfirvöldum hér á landi. Engu að síður er einkar mikilvægt að fólk sem hefur verið á skilgreindum hættusvæðum virði ráðleggingar um sóttkví, en í þeim felst að forðast samneyti við aðra einstaklinga í 14 daga. Á mannamótum er einkar mikilvægt að til staðar sé aðstaða fyrir handþvott og handsprittun. Mælst er til að fólk noti aðrar kveðjur en handaband og faðmlög.
Álag á síma 1700
Líkt og síðustu daga hefur mikið álag verið á síma 1700, en þar getur fólk leitað upplýsinga í tengslum við COVID-19. Sjálfboðaliðar Rauða krossins taka einnig við símtölum í gegnum síma 1700 þegar álagið er mikið. Einnig er hægt að leita til heilsugæslunnar eða senda fyrirspurn í gegnum netspjall Heilsuvera.is en þar er hægt að komast í samband við heilbrigðisstarfsfólk.
Veiran rædd á fundi velferðarnefndar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, mættu á fund velferðarnefndar Alþingis í dag og svöruðu þar spurningum nefndarmanna og upplýstu þá jafnframt um stöðu mál í aðgerðum yfirvalda vegna COVID-19.