Fréttatilkynning vegna COVID-19 – 01.03.2020
1. mars 2020
Niðurstöður úr rannsókn 10 sýna sem tekin voru í gær liggja fyrir og eru þau öll neikvæð fyrir veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómi. Enn eru 2 sýni í greiningu hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Vonast er til að niðurstaða úr þeim liggi fyrir síðar í dag eða á morgun.
1. mars 2020 kl. 15:40
Niðurstöður úr rannsókn 10 sýna sem tekin voru í gær liggja fyrir og eru þau öll neikvæð fyrir veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómi. Enn eru 2 sýni í greiningu hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Vonast er til að niðurstaða úr þeim liggi fyrir síðar í dag eða á morgun. Núna hafa alls 95 sýni verið rannsökuð hér á landi og aðeins eitt af þeim reyndist vera jákvætt fyrir COVID-19. Sá einstaklingur, maður á fimmtudagsaldri sem nýverið var á Norður-Ítalíu, er enn í einangrun á Landspítala. Honum heilsast vel, en líkt og komið hefur fram sýnir hann dæmigerð einkenni sjúkdómsins (hósti, hiti og beinverkir). Hafa ber í huga að veiran veldur ekki alvarlegum veikindum hjá yfirgnæfandi hluta fólks.
Fyrir helgi lýsti almannavarnadeild ríkislögreglustjóra yfir hættustigi vegna COVID-19 í samvinnu við sóttvarnalækni og er sem fyrr unnið samkvæmt Landsáætlun um heimsfaraldur. Áhættumat og skilgreind hættusvæði eru óbreytt en endurmetin daglega.
Síðdegis í gær lenti flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli eftir flug frá Veróna á Ítalíu. Um borð voru um 180 farþegar sem höfðu dvalið í norðurhluta landsins. Sérstakur viðbúnaður var viðhafður vegna þessa, þar á meðal var heilbrigðisstarfsfólk á staðnum til að koma upplýsingum til farþega um skilyrði fyrir heimasóttkví, kynningu á síma 1700 sem fólkinu er ráðlagt að hringja í finni það fyrir einkennum (hósti, hiti, beinverkir, mæði) og aðrar upplýsingar í tengslum við COVID-19. Þrír farþegar upplýstu heilbrigðisstarfsfólk um að þau fyndu fyrir flensueinkennum og voru sýni tekin hjá þeim til greiningar.
Laugardaginn næstkomandi (7.2.2020) kemur annar hópur til landsins með flugi frá Veróna. Að óbreyttu verður sami viðbúnaður þá og í gær.
Starfsfólk sóttvarnalæknis er í góðu sambandi við 10 Íslendinga sem eru í sóttkví á H10 Costa Adeje Palace hótelinu á Tenerife. Hefur hópurinn verið hvattur til að fylgja fyrirmælum spænskra heilbrigðisyfirvalda en þau bera ábyrgð á sóttkvínni og á þeim einstaklingum sem þar eru. Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur jafnframt verið fólkinu innan handar og sér um samskipti við spænsk yfirvöld vegna málsins. Ekki er vitað hvenær sóttkví verður aflétt á hótelinu eða hvenær von er á fólkinu til Íslands.
Að endingu lýsir almannavarnadeild ríkislögreglustjóra yfir ánægju að undanþágubeiðnir hafi fengist frá verkfalli félagsmanna Eflingar svo hægt verði að sinna sorphirðu og þrifum á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu.
Sóttvarnalæknir minnir á að einstaklingar, með búsetu á Íslandi, sem hafa verið á skilgreindum áhættusvæðum og snúa heim eru hvattir til að halda sig heima í 14 daga eftir að þeir hafa yfirgefið skilgreind áhættusvæði, sjá leiðbeiningar til einstaklinga í sóttkví. Ef þeir fá einkenni frá öndunarfærum, sérstaklega með hita, skulu þeir hafa samband við Læknavaktina í síma 1700 eða sína heilsugæslu símleiðis en ekki mæta óboðaðir á sjúklingamóttökur.
Að óbreyttu verður næsti upplýsingafundur almannavarna og sóttvarnalæknis á morgun, mánudaginn 2. mars.