Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Flensur og aðrar pestir - 6. vika 2018

15. febrúar 2018

Aukning var á fjölda einstaklinga sem greindust með staðfesta inflúensu í sjöttu viku ársins borið saman við vikuna á undan, töluverð aukning varð á fjölda inflúensu B greininga.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Staðfest inflúensa á veirufræðideild Landspítala í 6. viku 2018. Aukning var á fjölda einstaklinga sem greindust með staðfesta inflúensu í sjöttu viku ársins borið saman við vikuna á undan, töluverð aukning varð á fjölda inflúensu B greininga. Alls greindust 18 einstaklingar með inflúensu A, þar af voru 17 með inflúensu A(H3). Af þeim sem greindust með inflúensu A(H3) voru 12 einstaklingar 65 ára og eldri, með meðalaldur 65 ár, en þeir sem greindust með inflúensu B voru á öllum aldri með meðalaldur 48 ár. Hátt hlutfall inflúensu B greininga er í samræmi við stöðuna á meginlandi Evrópu, þar sem inflúensa B er algengasta greiningin, en breytilegt er milli landa hvaða inflúensustofn er ráðandi.

Inflúensan í heilsugæslu og á bráðamóttökum. Í síðustu viku (6. viku) fjölgaði þeim sem greindust með inflúensulík einkenni í heilsugæslunni og bráðamóttökum, en aðeins dró úr aukningu milli vikna, borið saman við vikuna á undan, sjá mynd 1.

Staðan á meginlandi Evrópu. Inflúensan var áfram í mikilli útbreiðslu á meginlandi Evrópu í 5. viku, sjá inflúensuvef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Inflúensa B var enn ríkjandi en bæði inflúensa A(H3) og inflúensa A(H1)pdm09 hefur greinst á meginlandinu en hlutfall þessara veirustofna er breytilegt milli landa og vöktunarkerfa.

Innlagnir vegna inflúensu á Landspítala. Samkvæmt upplýsingum frá sýkingavarnadeild Landspítala fækkaði innlögnum í 6. viku borið saman við vikuna á undan. Mynd 2 sýnir aldursdreifingu þeirra sem lagðir voru inn á Landspítala með inflúensu frá því í 37. viku 2017. Flestir sem lögðust inn vegna inflúensu voru einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma eða aldraðir.

RSV og aðrar öndunarfæraveirur. Enn greinast margir með staðfesta Respiratory Syncytial veirusýkingu (RSV). Í 6. viku var veiran staðfest hjá 15 einstaklingum. Þar af voru sjö börn á fyrsta og öðru aldursári og sjö einstaklingar 74 ára og eldri. Aldraðir og ungabörn eru þekktir áhættuhópar en veiran hefur einnig verið staðfest hjá fólki á öðrum aldri. Í síðustu viku var human metapneumóveira staðfest hjá þremur einstaklingum en þeir sem greinast með þessa veiru geta haft svipuð einkenni og RSV veldur hjá börnum.

Samantekt og mat á öndunarfæraveirum síðastliðnar vikur. Bæði Inflúensa A og B breiddist út í samfélaginu, inflúensa B greindist hjá fólki á öllum aldri á meðan inflúensa A var oftast staðfest meðal aldraðra. Líklega er inflúensan í hámarki núna og gera má ráð fyrir að það byrji að draga úr henni á næstu vikum. RSV-veiran breiðist enn út og greinist oftast hjá ungum börnum og öldruðum einstaklingum.

Meltingarfærasýkingar. Samkvæmt tilkynningum frá heilsugæslunni og bráðamóttökum hefur niðurgangur verið meiri en gera má ráð fyrir á þessum árstíma síðastliðnar þrjár vikur, sjá mynd 3. Aldursdreifing niðurgangstilfella sýnir að aukningin var mest meðal barna á aldrinum 1–4 ára. Samtímis fjölgar þeim sem greinast með rótaveiru. Við nánari athugun sést að rótaveiran hefur oftast verið staðfest hjá ungum börnum. Þetta bendir til að rótaveiran breiðist út í samfélaginu þessar vikurnar og veldur veikindum hjá ungum börnum. Nokkrir voru með staðfesta calici- eða astróveirusýkingu, flestir þeirra voru á barnsaldri.

Sóttvarnalæknir