Flensur og aðrar pestir - 2. vika 2020
16. janúar 2020
Í síðustu viku var inflúensan staðfest hjá níu manns, sem er aðeins færri en í vikunum á undan.
Staðfest inflúensa á veirufræðideild Landspítala og fjöldi sýna. Í síðustu viku var inflúensan staðfest hjá níu manns, sem er aðeins færri en í vikunum á undan. Flestir hafa verið með inflúensu A(H3) en nokkuð hefur verið um inflúensu A(H1)pdm09 í desember og fyrstu tvær vikur þessa árs. Frá því um mánaðarmótin september – október hafa samtals 88 einstaklingar verið með staðfesta inflúensu, þar af voru 60 með inflúensu A(H3), 22 með inflúensu A(H1)v og sjö með inflúensu B.
Inflúensan í heilsugæslu og á bráðamóttökum. Fjöldi þeirra sem leituðu til læknis með einkenni inflúensu í 2. viku var nánast óbreyttur miðað við 1. viku þessa árs skv. upplýsingum frá heilsugæslunni og bráðamóttökum.
Innlagnir á sjúkrahús. Í desember lögðust þrír einstaklingar inn á sjúkrahús með inflúensu, þar af voru tveir fullorðnir um áttrætt með inflúensu A(H3) og eitt barn með inflúensu A(H1)pdm09. Í síðustu viku voru tveir einstaklingar lagðir inn á Landspítala vegna inflúensu, annar var fullorðinn með inflúensu B en hinn var lítið barn með inflúensu A(H3).
Staðan á meginlandi Evrópu. Inflúensan greinist í löndum Evrópusambandsins, en víðast hvar hefur hún ekki náð mikilli útbreiðslu. Bæði inflúensa A(H3 og H1pdm09) og inflúensa B greinast, sjá nánar á sameiginlegum inflúensuvef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
Samantekt og mat á inflúensunni síðastliðnar vikur. Aðeins færri sjúklingar voru með staðfesta inflúensu í síðustu viku borið saman við vikuna á undan. Svipaður fjöldi leitaði til læknis vegna inflúensulíkra einkenna samkvæmt klínísku mati læknis. Inflúensan fer því hægt af stað þennan veturinn.
RSV og aðrar öndunarfæraveirur. Í 2. viku þessa árs voru átta einstaklingar með staðfesta Respiratory Syncytial veirusýkingu (RSV) og fimm voru með Human Metapneumóveiru (hMPV). Einnig hefur töluvert greinst af parainflúensu-1 og af rhinoveiru í vetur.
Meltingarfærasýkingar. Fjöldi þeirra sem leituðu á heilsugæsluna og á bráðamóttökur með niðurgang sl. tvær vikur var svipaður borið saman við meðaltal sömu vikna sl. fimm ár, sjá mynd 2 og 13 einstaklingar voru með staðfesta sýkingu af völdum nóróveiru. Það er því enn töluvert um nóróveirusýkingar. Í síðustu viku voru fáar aðrar iðrasýkingaveirur staðfestar á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.
Sóttvarnalæknir