Finnum gleðina og slöbbum saman
18. janúar 2022
Heilsueflandi samfélag á vegum embættis landlæknis tekur höndum saman með ÍSÍ, UMFÍ og Sýn og hvetur fólk til að hreyfa sig og almennt finna gleðina í skammdeginu. Fátt hefur jafn jákvæð áhrif fyrir andlega, líkamlega og félagslega heilsu okkar og líðan en regluleg hreyfing og almenn virkni.
Heilsueflandi samfélag á vegum embættis landlæknis tekur höndum saman með ÍSÍ, UMFÍ og Sýn og hvetur fólk til að hreyfa sig og almennt finna gleðina í skammdeginu. Fátt hefur jafn jákvæð áhrif fyrir andlega, líkamlega og félagslega heilsu okkar og líðan en regluleg hreyfing og almenn virkni. Hreyfing spornar m.a. gegn streitu og kvíða, bætir svefn, styrkir ónæmiskerfið og eykur þrek til að takast á við dagleg verkefni. Í stuttu máli léttir hreyfing okkur lífið. Landsmenn eru því hvattir til að fara út í göngutúr og/eða stunda aðra hreyfingu sem hentar hverju sinni.
Samanber ráðleggingar um hreyfingu er æskilegt að hreyfa sig rösklega á hverjum degi, fullorðnir í minnst 30 mínútur og börn í minnst 60 mínútur samtals. Dagsformið er misjafnt og því er gott að muna að það er alltaf betra að hreyfa sig lítið eitt fremur en ekki neitt – stundum er betra en aldrei.
Þegar veður, færð og annar mótbyr er ekki að vinna með okkur hjálpar að beina athyglinni að því sem er jákvætt, veitir okkur vellíðan og hafa húmorinn að leiðarljósi. Því er lögð áhersla á að labba saman í slabbinu eða SLABBA saman samhliða því sem sólin hækkar á lofti, sjá nánar á vef Slöbbum saman.
Heilsuvera, hagnýtar upplýsingar um hreyfingu, mataræði, svefn og aðra þætti sem snúa að heilsu og líðan.
Fimm leiðir að vellíðan eru fimm einföld ráð um þá þætti sem skipta hvað mestu máli fyrir hamingju og lífsánægju.
Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags og hreyfingar