Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Ebóla í Austur-Kongó

9. maí 2018

Ebólusjúkdómur hefur verið staðfestur í Equatur-héraði í norðvestur hluta Austur-Kongó (áður Saír), nærri landamærum við Kongó.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Ebólusjúkdómur hefur verið staðfestur í Equatur-héraði í norðvestur hluta Austur-Kongó (áður Saír), nærri landamærum við Kongó. Talið er að a.m.k. 10 hafi veikst af sjúkdómnum hingað til. Þetta virðist enn sem komið er vera staðbundinn faraldur eins og flestir ebólufaraldrar í sögunni, en ebóla kemur nokkuð reglulega upp í Austur-Kongó og dregur veiran nafn sitt af ánni Ebola í norðurhluta landsins.

Ólíkt stóra ebólufaraldrinum á þéttbýlum svæðum í Vestur-Afríku 2014–2015 er hæpið að ferðamönnum stafi veruleg hætta af þessum faraldri en brýnt er að ferðalangar í Afríku og öðrum hitabeltissvæðum geri ráðstafanir til að forðast algenga og oft hættulega hitabeltissjúkdóma s.s. malaríu, beinbrunasótt og taugaveiki. Einnig er rétt að hafa í huga að hundaæði og fleiri lífshættulegir sjúkdómar, þ. á m. hugsanlega ebóla, geta borist frá leðurblökum og öðrum dýrum eða í sumum tilvikum dýraúrgangi og er rétt að forðast snertingu við ókunnug dýr eða dýraúrgang á ferðalögum.

Rétt er að ræða við lækni ef fram koma veikindi með hita innan mánaðar eftir ferðalag á framandi slóðir og taka fram hvar var ferðast og við hvaða aðstæður.

Nánari upplýsingar um ebólusjúkdóm á íslensku má finna á vef Embættis landlæknis.

Sóttvarnalæknir