Dagur án tóbaks er í dag
31. maí 2018
Dagur án tóbaks er í dag 31. maí. Þessi árlegi alþjóðlegi baráttudagur gegn tóbaksnotkun er að þessu sinni helgaður tóbaki og hjartasjúkdómum (Tobacco and heart disease).
Dagur án tóbaks er í dag 31. maí. Þessi árlegi alþjóðlegi baráttudagur gegn tóbaksnotkun er að þessu sinni helgaður tóbaki og hjartasjúkdómum. Síðan árið 2006 hefur heiti dagsins verið Dagur án tóbaks en áður var dagurinn nefndur Reyklausi dagurinn. Dagur án tóbaks var fyrst haldinn á Íslandi árið 1979 en hefur verið haldinn árlega hér á landi frá árinu 1987.
Tóbaksnotkun er stór áhættuþáttur fyrir þróun hjartasjúkdóma og heilablóðfalls, auk annarra æðasjúkdóma. Þrátt fyrir að skaði af völdum tóbaks sé vel þekkur virðast margir ekki gera sér grein fyrir að tóbaksnotkun er ein helsta orsök hjartasjúkdóma. Af þeim 1338 sjúklingum sem voru meðhöndlaðir vegna kransæðastíflu á Landspítala á árabilinu 2015-2017 höfðu 27% aldrei reykt, 44% voru fyrrum reykingamenn og 29% reyktu að staðaldri þegar þeir fengu hjartaáfallið. Reykingar eru því áhættuþáttur 73% sjúklinga með kransæðastíflu.
Talsvert hefur áunnist í baráttunni við hjarta og æðasjúkdóma hér á landi en samt sem áður eru þeir lang algengasta dánarorsökin á Íslandi. Í rannsókn Hjartaverndar fyrir nokkrum árum var áætlað að lækkandi reykingatíðni Íslendinga skýrði um 22% af fækkun dauðsfalla vegna kransæðastíflu á tímabilinu 1981-2006.
Könnun á tóbaksneyslu ásamt notkun á rafrettum 2018
Árið 2012 og 2015 voru gerðar ítarlegar kannanir á notkun tóbaks meðal Íslendinga 18 ára og eldri. Árið 2015 var fyrst byrjað að kanna notkun á rafrettum. Samskonar könnun var framkvæmd 2018 og verða niðurstöður kynntar í heild síðar. Í tilefni Dags án tóbaks verða hér birtar fyrstu niðurstöður úr þessari könnun.
Árangur af tóbaksvarnastarfi undanfarinna áratuga er mikill og er tíðni reykinga hér hvað lægst í Evrópu. Frá árunum 2015 til 2018 hafa daglegar reykingar Íslendinga 18 ára og eldri lækkað úr 11% í 9%.
Á meðal kvenna er hlutfall daglegra reykingar hæst í aldurshópnum 55 til 64 ára eða um 13% en minnst í aldurshópnum 18–24 ára eða 6%.
Á meðal karla er hlutfall daglegra reykinga hæst í aldurshópnum 35–45 ára eða 12% en minnst í aldurshópnum 18–24 ára eða 5%.
Í ljósi þess hve tíðni daglegra reykinga er hlutfallslega lág hér á landi í alþjóðlegum samanburði er ánægjulegt að tíðnin heldur áfram að lækka jöfnum skrefum. Ef fram heldur sem horfir munu daglegar reykingar mælast um 5% árið 2023 sem er viðmið margra þjóða um endatafl tóbaksreykinga.
Neysla á tóbaki í vör að aukast
Aukning síðustu ára í neyslu á tóbaki í vör hér á landi einkum í hópi ungra karlmanna hefur verið áhyggjuefni. Að undanförnu hafa verið vangaveltur um aukna notkun á tóbaki í vör meðal ungra kvenna. Heildartíðni notkunar tóbaks í vör hjá konum hefur mælst óveruleg í fyrri könnunum en mælist nú 3% í aldurshópnum 18 – 24 ára og rúmlega 2 % í aldurshópnum 25 – 34 ára.
Dagleg notkun tóbaks í vör jókst úr 3% árið 2015 í 5% árið 2018 á meðal beggja kynja 18 ára og eldri. Dagleg notkun tóbaks í vör dregst saman hjá yngsta aldurshóp karla (18–24 ára) eða úr 23% árið 2015 í 14% árið 2018. Á hinn bóginn jókst dagleg notkun í aldurshópnum 25 – 34 ára karla úr 7% 2015 í 22% árið 2018.
Tíðni daglegrar neyslu tóbaks í nef er um 3% meðal karla 18 ára og eldri og hefur lítið breyst frá fyrri könnun og er mest í aldurshópnum 45 – 54 ára eða tæplega 7%.
Rafrettur
Dagleg notkun á rafrettum hjá báðum kynjum 18 ára og eldri hefur aukist úr 1% árið 2015 í 5% árið 2018. Notkunin er algengari hjá yngri aldurshópum og er lítill munur á milli karla og kvenna. Rúmlega 8% karla og kvenna á aldrinum 18 til 34 ára nota rafrettur daglega og eru hún því orðin algengari en daglegar reykingar í þessum aldurshópi sem er um 6%.
Algengir styrkleikar á vökva sem notaður er í rafrettur eru 6 milligrömm af nikótín í millilítra (mg/ml), 12mg/ml og 18mg/ml. Flestir eða um 70% þeirra sem nota nikótínvökva í rafrettur nota vökva sem inniheldur 6 mg/ml, 20% nota 12 mg/ml og 6% nota 18 mg/ml styrkleika nikótíns. Algengast er að þeir sem nota rafrettur noti bragðbættan vökva eða um 90%.
Þeim sem reykja daglega fækkar um 5.500 manns milli áranna 2015 og 2018. Fjöldi þeirra sem taka tóbak í nefið fækkar um 900 manns en þeim sem taka tóbak í vör fjölgar um 3.100 manns milli 2015 og 2018. Hins vegar fjölgar þeim sem nota rafrettur daglega um 9.200 á síðustu þremur árum.
Niðurstöður þessarar könnunar eiga eftir að birtast í heild með ítarlegri túlkun.
Viðar Jensson
Sveinbjörn Kristjánsson