Breytt verklag við Rhesusvarnir
7. febrúar 2018
Nýtt verklag var um áramótin tekið upp hjá mæðravernd heilsugæslunnar við Rhesusvarnir, en þá var fyrirbyggjandi gjöf Rhesus mótefnis á meðgöngu innleidd hjá Rhesus D neikvæðum konum sem ganga með Rhesus D jákvæð börn.
Nýtt verklag var um áramótin tekið upp hjá mæðravernd heilsugæslunnar við Rhesusvarnir, en þá var fyrirbyggjandi gjöf Rhesus mótefnis á meðgöngu innleidd hjá Rhesus D neikvæðum konum sem ganga með Rhesus D jákvæð börn. Hingað til hafa Rhesusvarnir falist í fyrirbyggjandi gjöf Rhesus D mótefnis til Rhesus D neikvæðrar móður eftir fæðingu Rhesus D jákvæðs barns. Með nýju verklagi fá Rhesus D neikvæðar konur því tvo fyrirbyggjandi skammta af Rhesus mótefnum gangi þær með Rhesus D jákvætt barn, í stað eins skammts.
Getur komið í veg fyrir fóstur og nýburablóðrof
Rhesusvarnir sem hófust á Íslandi árið 1969 eru dæmi um góðan árangur af bættri meðferð í þágu þungaðra kvenna og barna þeirra. Þessi meðferð getur komið í veg fyrir fóstur- og nýburablóðrof sem er alvarlegur sjúkdómur sem þróast þegar um er að ræða blóðflokkamisræmi milli móður og barns. Afleiðingar fóstur- og nýburablóðrofs geta verið alvarlegar, allt frá alvarlegri gulu og þroskaskerðingu til dauða barns. Helsta meðferð eftir fæðingu er ljósameðferð og í alvarlegustu tilvikum blóðskipti. Fyrir daga Rhesusvarna voru gerð blóðskipti hjá a.m.k. 30 börnum árlega hér á landi. Í dag telst til tíðinda ef þau börn eru fleiri en 1-2 á ári.
Hægt að greina á meðgöngu
Ný skimunaraðferð sem innleidd hefur verið í Blóðbankanum er forsenda þess að nú er mögulegt að greina þær konur á meðgöngu sem ganga með Rhesus D jákvæð afkvæmi. Þessi aðferð felur í sér að hægt er að greina Rhesus D blóðflokk fósturs með blóðsýni frá móður með sameindaerfðafræðilegum aðferðum. Þessi skimun verður gerð hjá öllum Rhesus D neikvæðum konum í kringum 24. -26. viku meðgöngu. Reynist konan ganga með Rhesus D jákvætt barn eru henni boðin Rhesus D mótefni við 28 vikur meðgöngu. Sýnt hefur verið fram á í erlendum rannsóknum að þessi fyrirbyggjandi meðferð á meðgöngu getur lækkað tíðni Rhesusnæmingar móður tífalt, eða úr 1-2% í 0,1-0,2%. Því má búast við að alvarlegum tilfellum fóstur- og nýburablóðrofs fækki enn frekar á næstu árum.
Áætlað er að um 600 Rhesus D neikvæðar konur séu árlega í mæðravernd á heilsugæslum landsins og að um 60% þeirra eða 360 konur gangi með Rhesus D jákvæð börn. Með því að bæta við Rhesusvörnum á meðgöngu má bæta útkomu þessa hóps og með því að stýra gjöf Rhesus mótefnis á meðgöngu með skimun á blóðflokki fósturs er komið í veg fyrir óþarfa gjöf mótefnis til þeirra kvenna sem ganga með Rhesus D neikvæð börn.