Bólusetning við hlaupabólu
6. júní 2019
Sóttvarnalæknir undirbýr nú að hefja almenna bólusetningu við hlaupabólu árið 2020. Hún verður í boði endurgjaldslaust fyrir öll börn fædd 1. janúar 2019 eða síðar.
Sóttvarnalæknir undirbýr nú að hefja almenna bólusetningu við hlaupabólu árið 2020. Hún verður í boði endurgjaldslaust fyrir öll börn fædd 1. janúar 2019 eða síðar.
Hlaupabóla er mjög algengur barnasjúkdómur hér á landi en rannsókn sem birt var 2009 sýndi að nær öll íslensk börn hafa fengið hlaupabólu fyrir 10 ára aldur og um helmingur fyrir 4ra ára aldur. Sýkillinn sem veldur hlaupabólu er veira sem er skyld öðrum algengum veirum í mönnum, s.s. frunsuveiru og einkirningasótt. Flest börn verða ekki alvarlega veik með hlaupabólu en yfirleitt vara veikindin í u.þ.b. viku með tilheyrandi vinnutapi foreldra og einnig er nokkuð algengt að sárin eftir hlaupabóluna sýkist með tilheyrandi læknisheimsóknum og lyfjakostnaði fyrir foreldra. Sum börn fá veiruna í heila, lifur eða lungu og geta veikindin orðið mun alvarlegri við slíkar sýkingar. Dauðsföll eru sjaldgæf meðal áður hraustra barna en koma fyrir. Veiran situr áfram í líkamanum eftir að veikindin ganga yfir og getur brotist fram síðar á formi ristils, útbrota sem geta valdið miklum sársauka, stundum vikum saman, og ef ristill kemur fram við auga getur hann valdið blindu. Ristill getur komið fram endurtekið hjá sama einstaklingi. Bólusetning við hlaupabólu dregur verulega úr hættu á hlaupabólu og þar með einnig úr líkum þess að bólusettur einstaklingur fái ristil í framtíðinni.
Bóluefni við hlaupabólu hafa verið notuð í Bandaríkjunum og víðar í um 30 ár með ágætum árangri og var almenn bólusetning tekin upp í Finnlandi nýlega. Bóluefni við hlaupabólu hefur verið á markaði hér í rúm 20 ár en var lítið notað framan af. Undanfarin ár hafa foreldrar í vaxandi mæli keypt þessa bólusetningu fyrir börn sín og er nú svo komið að rúmlega 10% barna á leikskólaaldri hafa klárað bólusetningu við hlaupabólu. Það er of lágt hlutfall til að draga úr hinum reglulegu faröldrum sem við sjáum hérlendis, en með almennri bólusetningu er von til að dragi verulega úr faröldrum og mögulegt að þeir hverfi með tímanum ef þátttaka er góð.
Nokkur bóluefni við hlaupabólu eru skráð í Evrópu en þau innihalda öll lifandi veiklaða veiru, svipað og MMR bóluefnið sem ver gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum. Þau má því ekki nota fyrir einstaklinga með alvarlegan ónæmisbrest, hvort sem er meðfæddur eða áunninn, t.d. vegna ónæmisbælandi meðferðar eftir líffæragjöf.
Fyrirkomulag bólusetningarinnar við hlaupabólu verður auglýst nánar síðar en bólusetning er fullgild eftir tvo skammta með a.m.k. 4 vikna millibili.
Sóttvarnalæknir