Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Bóluefni gegn árlegri inflúensu 2018/2019 verður tilbúið til afhendingar frá og með 10.9.2018

3. september 2018

Bóluefnið Influvac inniheldur vörn gegn inflúensu A(H1N1), A(H3N2) og inflúensu B.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Bóluefni gegn árlegri inflúensu er nú komið til landsins og verður tilbúið til afhendingar hjá Parlogis ehf. frá og með 10.9.2018.

Bóluefnið Influvac inniheldur vörn gegn inflúensu A(H1N1), A(H3N2) og inflúensu B.

Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningu:

  • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.

  • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.

  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.

  • Þungaðar konur.

Vakin er athygli á því að ofangreindir áhættuhópar eiga rétt á bóluefninu sér að kostnaðarlausu.

Þar sem ekki gefst kostur á meira en 65.000 skömmtum af bóluefninu á þessum vetri þá hefur verið gripið til þess ráðs að gefa heilsugæslustöðvum, læknastofum og öðrum sjúkrastofnunum forskot til að panta bóluefni frá og með 10. september nk. Tveimur vikum síðar eða frá og með 24. september nk. geta aðrir aðilar sem leyfi hafa til bólusetningar pantað bóluefnið hjá Parlogis meðan birgðir endast. Þetta er gert til að tryggja sem best að einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma njóti forgangs við bólusetninguna.

Almenn bólusetning er í höndum heilsugæslunnar en auk þess er bólusett á sjúkrastofnunum og ýmis fyrirtæki hafa tekið að sér bólusetningu almennings og starfsmanna.

Þessir aðilar munu á næstunni auglýsa hvernig bólusetningunni verður háttað á þeirra stofnunum en yfirleitt er byrjað að bólusetja í október.

Eins og undanfarin ár er ekki nákvæmlega vitað á þessari stundu hvaða tegund inflúensu muni herja á landsmenn veturinn 2018 til 2019. Inflúensan er enn ekki farin að láta á sér kræla hér á landi en ávallt má búast við henni í kringum áramótin.

Bólusetning gegn inflúensu veitir allt að 60–70% vörn gegn sjúkdómnum. Jafnvel þótt bólusettur einstaklingur fái inflúensu eru allar líkur á því að sjúkdómurinn verði vægari en ef hann væri óbólusettur.

Sóttvarnalæknir