Biðlað til heilbrigðisstarfsmanna og annarra starfsmanna sem starfa við viðbúnað vegna COVID-19 um að bíða með ferðalög erlendis
2. mars 2020
Eins og kunnugt er þá er faraldur af völdum SARS-CoV-2 veirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19, í uppsiglingu. Margt er enn á huldu varðandi hegðun veirunnar en ljóst er að hún hefur breiðst hratt út um Evrópu síðastliðna fáeina daga, einkum á Ítalíu en það er einnig er fjölgun tilfella í öðrum löndum. Þann 1. mars voru staðfest 1520 smit í 23 löndum Evrópu og hefur smitum Í Evrópu fjölgað um 400 milli daga.
Eins og kunnugt er þá er faraldur af völdum SARS-CoV-2 veirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19, í uppsiglingu. Margt er enn á huldu varðandi hegðun veirunnar en ljóst er að hún hefur breiðst hratt út um Evrópu síðastliðna fáeina daga, einkum á Ítalíu en það er einnig er fjölgun tilfella í öðrum löndum. Þann 1. mars voru staðfest 1520 smit í 23 löndum Evrópu og hefur smitum Í Evrópu fjölgað um 400 milli daga. Þá eru þrjú smit staðfest hérlendis og um 300 manns komnir í sóttkví. Búið er að skilgreina alla Ítalíu sem áhættusvæði (auk Kína, Írans, S. Kóreu) og þurfa allir sem þaðan koma, eða komið hafa frá kl. 8 laugardaginn 29. febrúar, að gangast undir sóttkví. Þá er ráðlagt gegn ónauðsynlegum ferðum til Ítalíu og annarra áhættulanda.
Það er vitað að fjöldi heilbrigðisstarfsmanna, ekki síst af Landspítala er á faraldsfæti, t.d. í skíðafríum, en af hálfu Landspítala er verið að kortleggja hve marga er um að ræða. Því er líklegt að einhver fjöldi heilbrigðisstarfsmanna þurfi í sóttkví sem varir í 14 daga. Þá er ljóst að íslenskt heilbrigðiskerfi er m.a. vegna smæðar sinnar, viðkvæmt og afdrifaríkt gæti verið ef upp kæmi smit hjá starfsmanni.
Því vilja landlæknir, sóttvarnalæknir og almannavarnir biðla til heilbrigðisstarfsmanna sem og annarra starfsmanna er starfa við viðbúnað vegna COVID-19 að fresta öllum utanlandsferðum eftir því sem kostur er meðan það er að skýrast hvert umfang faraldursins verður. Þessi beiðni er sett fram til að mæta líklegu álagi á heilbrigðiskerfið sem kann að hljótast annars vegar af fjölgun tilfella og hins vegar af fjölgun heilbrigðisstarfsmanna í sóttkví. Starfsmenn eru beðnir um að ræða málin frekar við sína yfirmenn eins og þarf.