Andstæðingum líffæragjafa fækkaði mjög á fáeinum árum
19. desember 2018
Verulegrar viðhorfsbreytingar gætir meðal nánustu aðstandenda mögulegra líffæragjafa þegar svara þarf á örlagastundu spurningu um hvort fallist sé á líffæragjöf eða ekki.
Verulegrar viðhorfsbreytingar gætir meðal nánustu aðstandenda mögulegra líffæragjafa þegar svara þarf á örlagastundu spurningu um hvort fallist sé á líffæragjöf eða ekki. Á tímabilinu 1992-2002 höfnuðu um 40% aðstandenda líffæragjöf en núna er hlutfallið komið niður í 15%.
Þetta kom fram á fundi á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 13. desember til kynningar á breyttum lögum um líffæragjafir sem taka gildi um áramót. Frummælendur voru Jórlaug Heimisdóttir, verkefnisstjóri hjá landlækni, og Jóhann Jónsson, læknir á Landspítala.
Jóhann er skurðlæknir með sérþjálfun í líffæraígræðslum og hefur starfað í Bandaríkjunum í 35 ár. Hann er nýlega fluttur heim til starfa á Landspítala.
Jóhann kom til Íslands annað slagið á undanförnum 14 árum og stýrði teymi á Landspítala við nýrnaígræðslur, einu ígræðslur líffæra sem framkvæmdar eru hérlendis. Önnur líffæri eru grædd í íslenska sjúklinga á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg. Teymi þaðan kemur í einkaþotu til Íslands þegar staðfest er að líffæri verði gefin á Landspítala eða á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Tveir skurðlæknar eru í þotunni, tveir hjúkrunarfræðingar og stundum svæfingarlæknir líka, sérþjálfað og þrautreynt lið í verkefnum af þessu tagi.
Skammur tími er til stefnu að finna sjúklinga ytra sem gætu notað líffæri sem gefin eru og sjúklingarnir gætu þess vegna verið annars staðar en í Svíþjóð. Teymið frá Gautaborg millilenti til dæmis í Lundúnum á dögunum áleiðis frá Reykjavík til Svíþjóðar, skildi eftir hjarta þar en hélt áfram með nýru til Gautaborgar.
Annað dæmi er millilending í Osló með lifur frá Íslandi og svo hélt teymið áfram til Gautaborgar með önnur líffæri frá Íslandi.
Einn líffæragjafi getur bjargað heilsu eða sjálfu lífi allt að sex manns ef allt fer eins og best verður á kosið í þessum mikilvægu og lífsnauðsynlegu milliríkjasamskiptum heilbrigðiskerfa Íslands og grannríkja okkar.
Spánverjar eru duglegastir að gefa líffæri en Íslendingar hafa sótt í sig veðrið og jöfnuðu meira að segja Spánverja á heimslista líffæragjafa árið 2015.
Trúarbrögð eru ekki þröskuldur í þessari starfsemi, sama hverrar trúar menn eru sem vilja gefa eða þiggja líffæri. Jóhann sagði á Akranesfundinum að fyrst í stað hefðu strangtrúaðir gyðingar ekki viljað taka þátt í líffæragjöfum en það viðhorf væri nú breytt.
Jórlaug upplýsti að engar fyrirspurnir hefðu borist til embættis landlæknis frá trúfélögum eða trúarhópum hérlendis varðandi líffæragjafir og líffæraflutninga.
Og svo er það aldur líffæragjafa. Spurning þar að lútandi er borin fram á hverjum einasta kynningarfundi um breytt lög. Svarið er að aldurinn er enginn hindrun. Börn eru líffæragjafar, aldraðir líka. Elsti líffæragjafinn á Íslandi var 85 ára. Hann gaf lifur.
Jóhann kvaðst hafa grætt nýra í 88 ára sjúkling en bætti svo við: „Ég trúi ykkur fyrir leyndarmáli og það er að æskubrunnurinn er í lifrinni. Það er líffæri sem eldist mun hægar en aðrir hlutar líkama okkar!"