Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Alþjóðlegur baráttudagur gegn HIV/alnæmi er 1. desember ár hvert

1. desember 2019

Alþjóðlegi HIV/alnæmisdagurinn hefur verið haldinn 1. desember á ári hverju frá 1988. Dagurinn er haldinn til að vekja athygli á HIV með fræðslu og upplýsingagjöf og til að sýna samstöðu með þeim sem lifa með HIV.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Alþjóðlegi HIV/alnæmisdagurinn hefur verið haldinn 1. desember á ári hverju frá 1988. Dagurinn er haldinn til að vekja athygli á HIV með fræðslu og upplýsingagjöf og til að sýna samstöðu með þeim sem lifa með HIV. Í ár er lögð áhersla á mikilvægi nærsamfélagsins í því að greina og meðhöndla einstaklinga með HIV og veita þeim nauðsynlegan stuðning.

Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) voru undir lok ársins 2018 tæplega 38 milljónir manna með greint HIV/alnæmi í heiminum. Á árinu 2018 greindust 1,7 milljónir einstaklinga með nýtt HIV-smit í heiminum og um 770 þúsund létust af völdum sjúkdómsins. Alls er talið að um 32 milljónir einstaklinga hafi látist af völdum HIV/alnæmis frá upphafi.

Í Evrópu greindust um 170.000 einstaklingar með HIV-sýkingu á árinu 2018 og þar af langflestir í Austur-Evrópu. Þessar tölur eru samsvarandi tölum frá árinu 2017.

Hlutfall HIV-smitaðra sem ekki er kunnugt um smitið er mjög breytilegt milli landa, allt eftir uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og aðgengi að HIV-sýnatöku. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggur því mikla áherslu á aukið aðgengi að sýnatöku því með aukinni sýnatöku greinast fleiri sem leiðir til að fleiri fá meðferð með HIV-lyfjum. Þetta á ekki síst við á landssvæðum þar sem faraldurinn er í mestri útbreiðslu en á einnig við um Ísland og lönd í hinum vestræna heimi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggur jafnframt áherslu á að efla fræðslu í forvarnaskyni og að tryggja þurfi HIV-jákvæðum full mannréttindi, m.a. með því að vinna á móti stimplun og fordómum.

Á árinu 2018 greindust alls 38 einstaklingar (66% karlar) með HIV/alnæmi á Íslandi og var það nokkur aukning frá fyrri árum. Um 40% þessara einstaklinga voru samkynhneigðir karlar, um 40% gagnkynhneigðir einstaklingar og 5% sprautufíklar. Aðrir höfðu ýmist smitast með blóðgjöf (erlendis), í móðurkviði eða smitleið var óþekkt. Um fjórðungur nýgreindra var með erlent ríkisfang, einungis þrír smituðust á Íslandi. Margir hinna nýgreindu voru með þekkt smit við komuna hingað til lands.

Frá upphafi HIV-faraldursins hér á landi á árinu 1983 hafa 427 einstaklingar greinst með HIV-sýkingu, þar af 307 karlar og 110 konur. Flestir sem greindust voru á aldrinum 20–49 ára.

Þeir sem greinast hér á landi hafa gott aðgengi að HIV-lyfjum. Lyfin skipta miklu máli fyrir langlífi og lífsgæði hins sýkta. Talið er fólk sem tekur HIV-lyfin sín á hverjum degi geti átt von á því að lifa fram á gamalsaldur og lífsgæði þeirra verða í flestum tilfellum nánast eðlileg. Auk þess hefur komið í ljós að virk HIV-meðferð minnkar verulega líkur á smiti og gerir í mörgum tilfellum einstaklinga ósmitandi. Það er því til mikils að vinna fyrir fólk að fara í kynsjúkdómaskoðun hafi það minnstan grun um HIV eða annan kynsjúkdóm.

Hægt er að fara í HIV-próf á göngudeild smitsjúkdóma og húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala eða á heilsugæslustöðvum landsins. Til að auðvelda aðgengi fólks að greiningu er skoðun, meðferð og eftirfylgni sjúkdómsins þeim að kostnaðarlausu.

Meðan engin lækning eða bólusetning er til við HIV er smokkurinn alltaf besta forvörnin. Það gildir því að nota hann sem mest og nota hann rétt.

Nánari upplýsingar um HIV er hægt að nálgast á vef embættisins, sjá HIV/Alnæmi.

Sóttvarnalæknir