Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Alþjóðlegi hamingjudagurinn á tímum kórónaveiru

20. mars 2020

Alþjóðlegi hamingjudagurinn 20.03.2020

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Alþjóðlegi hamingjudagurinn er í dag 20. mars. Dagurinn var fyrst haldinn árið 2013 að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna með það að markmiði að vekja athygli á hamingju og vellíðan sem mikilvægu markmiði fyrir einstaklinga og stjórnvöld um heim allan. Síðustu ár hefur embætti landlæknis mælt hamingju landsmanna reglulega og haldið málþing á þessum degi í samstarfi við lykilaðila í samfélaginu um hamingju og vellíðan þar sem nýjustu hamingjutölur hafa verið kynntar. Í ljósi aðstæðna verður ekkert málþing í dag en við kynnum nýjustu tölur um hamingju hér á vefnum í staðinn. 

Meðalhamingja Íslendinga ekki breyst mikið síðustu ár og fjöldi þeirra sem telja sig mjög hamingjusama er um 60%. 

Síðustu þrjú ár hefur embættið, í samvinnu við Gallup, safnað gögnum um hamingju í hverjum mánuði til að geta skoðað hvort munur er á hamingju landsmanna eftir mánuðum. Sé hamingja Íslendinga greind eftir mánuðum árið 2019 sjáum við meiri breytingar milli mánuða en á milli ára. Það verður áhugavert að skoða hvernig árið 2020 verður í samanburði við árið 2019 í ljósi allra þeirra áskorana sem við erum að takast á við. Það skal tekið fram að þessar niðurstöður er fengnar úr gögnum sem Gallup hefur safnað fyrir embætti landlæknis fyrir árið 2019. Gögnin byggja á úrtaki 9623 einstaklinga þar sem 5024 svara (52,2%).

Hamingja Íslendinga í alþjóðlegum samanburði

Í dag kom út alþjóðlega hamingjuskýrslan þar sem hægt er að bera saman hamingju þjóða. Þar kemur fram að Ísland er í 4. sæti á lista yfir hamingjusömustu þjóðir í heimi. Ísland hefur verið í fyrsta sæti í alþjóðlegum samanburði, hefur aðeins fallið síðustu ár en þó alltaf í einu af efstu 5 sætunum. Mjög lítill munur er milli efstu landa og myndi ekki teljast marktækur en munur milli hópa innan þessar landa er meiri en milli landanna. Skýrsluna í heild sinni má finna hér: https://worldhappiness.report/

Tökumst á við áskoranir á uppbyggilegan hátt

Þó stóra verkefnið í samfélaginu í dag sé að ná utan um útbreiðslu kórónaveirunnar þá er mikilvægt að við hugum að öðrum þáttum samhliða. Hamingja snýst ekki um að vera áhyggjulaus og brosandi allan daginn heldur snýst hamingjuríkt líf ekki síst um að geta tekist á við áskoranir lífsins á uppbyggilegan hátt.

Í upphafi rannsókna á hamingju var gjarnan gengið út frá því að þau sem væri hamingjusömust hefðu átt auðveldasta lífið án áfalla en niðurstöður leiddu þvert á móti í ljós að þau sem fundu fyrir mestri hamingju áttu það sameiginlegt að hafa gengið í gegnum erfiðleika og náð að vinna úr þeim á uppbyggilegan hátt. Það að lenda í erfiðleikum gerir fólk ekki sjálfkrafa hamingjusamt heldur það að ná að vinna úr áskorunum á uppbyggilegan hátt og öðlast þannig skýrari skilning á hvað skipti mestu máli í lífinu.

Í rannsóknum okkar á áhrifum efnahagskreppunnar á hamingju Íslendinga kom í ljós að áhrifin voru lítil á fullorðna; meðalskor hamingju þeirra minnkaði aðeins lítillega. Þær niðurstöður sem komu okkur aftur á móti mest á óvart var að fleiri unglingar töldu sig hamingjusama eftir hrun bankanna en áður. Þá kom einnig í ljós að flest þeirra vörðu fleiri stundum með foreldrum sínum eftir efnahagshrunið og áttu auðveldara með að fá umhyggju frá foreldrum sínum en árin á undan. Sá hópur ungmenna sem varði litlum tíma með foreldrum og átti erfitt með að fá umhyggju frá þeim var hins vegar minna hamingjusamur eftir hrunið.

Þetta segir okkur að það eru ekki endilega atburðir, góðir eða slæmir, sem stýra líðan okkar, hamingju og velsæld, heldur hvernig við bregðumst við þeim. Það sem skiptir langmestu máli fyrir hamingju okkar í lífinu eru sambönd okkar við aðra. Ef erfiðir tímar verða til þess að við verjum meiri tíma, athygli og natni í þessi sambönd þá geta jafnvel erfiðar áskoranir orðið okkur til góðs þegar til lengri tíma er litið.   

Á sama tíma og við hvetjum alla til að huga vel að heilsu og vellíðan á þessum fordæmalausu tímum þá undirstrikum við mikilvægi þess að rækta tengsl við aðra. Það er það besta sem við gerum fyrir hamingju og vellíðan, bæði okkar eigin og annarra. Í því samhengi er gott að rifja upp „Fimm leiðir að vellíðan“ sem byggja á niðurstöðum rannsókna á því hvað skiptir mestu máli fyrir vellíðan okkar: Myndum tengsl, hreyfum okkur, tökum eftir, höldum áfram að læra og gefum af okkur.

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs