Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi
4. maí 2018
Starfshópur á vegum Embættis landlæknis sem unnið hefur tillögur að aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi hefur skilað niðurstöðum sínum til heilbrigðisráðherra.
Starfshópur á vegum Embættis landlæknis sem unnið hefur tillögur að aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi hefur skilað niðurstöðum sínum til heilbrigðisráðherra. Í starfshópnum sátu fulltrúar frá Geðhjálp, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Barna- og unglingageðdeild LSH og geðsviði Landspítala.
Aðgerðaáætlunin telur yfir 50 aðgerðir í 6 liðum og nær bæði til almennra samfélagslegra aðgerða, eins og að efla uppeldisskilyrði barna, geðrækt í skólastarfi og áfengis- og vímuefnaforvarnir, og sértækari aðgerða sem beinast að sérstökum áhættuhópum og takmörkun aðgengis að hættulegum efnum og aðstæðum.
Þessar áherslur samræmast því að verndandi og áhættuþættir sjálfsvíga skapast yfir langan tíma í lífi einstaklinga og árangursríkar forvarnir þurfa að beinast bæði að almennum og afmörkuðum þáttum. Aðgerðaáætlunin verður kynnt á málþingi geðsviðs Landspítala um sjálfsvígsforvarnir í dag.