Ábending: Listar fyrir tilbúna matarpakka en ekki innkaupalistar fyrir fólk í sóttkví
16. mars 2020
Listar fyrir tilbúna matarpakka en ekki innkaupalistar fyrir fólk í sóttkví
Í ljósi umræðu sem verið hefur í tengslum við matarpakka til heimila í sóttkví eða einangrun sem birtir eru í Viðbragðsáætlun Almannavarna, Heimsfaraldur - Landsáætlun, vill Embætti landlæknis taka eftirfarandi fram:
Samkvæmt beiðni voru útbúnir listar fyrir matarpakka sem sendir yrðu heim til fólks sem væri í sóttkví eða einangrun vegna faraldurs.
Við gerð þessara lista var gengið út frá því að ekki væri hægt að reikna með kæliaðstöðu þar sem matarpakkarnir yrðu útbúnir og að ferlið gæti tekið langan tíma. Það var því lögð áhersla á að hafa sem minnst af viðkvæmum eða ferskum matvælum og sem mest af geymsluþolnum matvælum.
Listarnir eru því ekki hugsaðir sem innkaupalistar fyrir fólk sem fer að versla og síðan strax með vörurnar í kæli eða frysti.
Það má hins vegar benda á, að á tímum sem þessum, getur verið gott að eiga eitthvað af geymsluþolnum matvælum á heimilinu.