Þessi frétt er meira en árs gömul
Íslenskt timbur til lagfæringa á Þingvöllum
14. nóvember 2023
Unnið er að endurbótum á efsta hluta göngustígsins frá útsýnispallinum á Hakinu á Þingvöllum og niður í Almannagjá. Viðargólf göngubrúarinnar verður endurnýjað með sitkagreni úr Haukadal sem unnið var í sögunarmyllu Skógræktarinnar í Þjórsárdal.
Grenitrén sem gáfu timbrið voru gróðursett í Haukadalsskógi undir lok sjöunda áratugarins. Nokkuð hafði fallið af trjám í reitnum vegna storma og þótti skynsamlegast að fella hann allan og rækta upp á nýtt. Talsverð sjálfsáning er einnig í reitnum sem áhugavert verður að fylgjast með á komandi árum en til að tryggja endurnýjun verður gróðursett í hann einnig.
Tandrabretti sáu um fellinguna á liðnu vori og timbrið var flutt til vinnslu í starfstöð Skógræktarinnar að Skriðufelli í Þjórsárdal. Brúargólfið var klætt timbri frá Stálpastöðum í Skorradal árið 2012 en tíminn vinnur á þessu ágæta efni ásamt þungum ferðamannastraumnum svo nú var komið að endurnýjun.
Vegna þessara framkvæmda verður efsti hluti göngustígsins sem liggur ofan frá útsýnispallinum á Haki niður í Almannagjá lokaður alla daga frá klukkan 18 til 23 fram í byrjun desember. Það á þó einungis við um efstu 200 metra gjárinnar en Almannagjá er annars öllum aðgengileg frá bílastæðum að neðanverðu, eins og kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu þjóðgarðsins.
Þessi árstími er valinn til framkvæmdanna í von um að þær hafi sem minnst áhrif á gesti þjóðgarðsins.
Tæplega sextugur skógur brúar gap í Almannagjá (frétt frá 21. ágúst 2012)
Flett í brúargólf (frétt frá 6. júlí 2012)
Texti: Pétur Halldórsson
Heimild: Trausti Jóhannsson