Herdís Gunnarsdóttir er nýr forstjóri Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála
3. júní 2022
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur skipað Herdísi Gunnarsdóttur í starf forstjóra Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála og tók hún við embættinu 1. apríl 2022.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur skipað Herdísi Gunnarsdóttur í starf forstjóra Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála og tók hún við embættinu 1. apríl 2022. Herdís Gunnarsdóttir er fædd árið 1968. Hún lauk BSc gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1993 og MSc gráðu í hjúkrunarfræði frá sama skóla árið 2001, með áherslu á nýbura- og barnahjúkrun. Hún er með sérfræðileyfi í barnahjúkrun og hæfi frá Háskóla Íslands sem klínískur lektor. Árið 2009 lauk hún MBA gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á stefnumótun, fjármál og líkön, breytinga- og verkefnastjórnun og þjónustustjórnun. Árið 2016 uppfyllti Herdís hæfis- og hæfnimat ráðgjafarnefndar Fjármálaeftirlitsins fyrir stjórnarmenn fjármálafyrirtækja.
Herdís hefur yfir 20 ára feril sem stjórnandi. Árin 2001 til 2006 var Herdís deildarstjóri á barnaskurðdeild, lyflækningadeild og dagdeild barna á Landspítala. Árið 2007 var hún verkefnastjóri gæða- og mannauðsmála á Barnaspítala Hringsins. Frá 2008 til ársins 2014 starfaði hún sem verkefnastjóri hjá framkvæmdastjórn Landspítala og á heilbrigðis- og upplýsingatæknideild spítalans við að stýra þróun, hönnun og innleiðingu nýrra kerfishluta í rafrænni sjúkraskrá og ýmissa gæðaverkefna. Árin 2014-2019 var Herdís skipuð forstjóri á Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) í víðfeðmasta heilbriðgisumdæmi landsins og sameinaði þrjár fyrri stofnanir í eina nýja stofnun. Á stofnuninni störfuðu þá um 500 manns á sviði heilsugæslu, sjúkrahúsa, hjúkrunarrýma og sjúkraflutninga. Á haustmánuðum ársins 2019 var hún tímabundið í starfi forstjóra á Reykjalundi. Frá því í mars 2020 gengdi hún starfi framkvæmdastjóra réttindasviðs Tryggingarstofnunnar og leiddi þar umfangsmikil verkefni er snúa að velferðarmálum og þjónustu.
Herdís hefur yfirgripsmikla reynslu á sviði rekstrar, stjórnunar mannauðs og faglegrar þjónustu. Hún hefur leitt umfangsmiklar umbætur og verkefni, komið að faglegri uppbyggingu og endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri og þjónustu. Hún hefur m.a. stýrt stefnumótunarvinnu, rekstraráætlanagerð, útboðum, þjónustukönnunum, greiningu á margs konar gögnum og upplýsingum. Hún hefur borið ábyrgð á þróun og innleiðingu umfangsmikilla gæða- og nýsköpunarverkefna og verið í leiðandi hlutverki í umbótum, framþróun og samvinnu faghópa. Hún hefur samhliða stjórnunarstörfum sinnt háskólakennslu og rannsóknarvinnu. Að auki hefur hún mikla reynslu af stjórnarstörfum á vettvangi félagasamtaka, stéttarfélaga, lífeyrissjóða, banka og í Evrópusamstarfi. Má þar nefna að Herdís var um tíma stjórnarformaður Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga og situr nú í varastjórn Íslandsbanka.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: Það er mikill fengur að fá Herdísi til að byggja upp og stýra Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Hún hefur mikla og fjölbreytta reynslu sem á eftir að nýtast vel í þessum mikilvæga málaflokki og ég hlakka mikið til samstarfsins við hana.