Stefnur
Samþykktar stefnur sem unnið er eftir hjá Fjársýslunni
Helstu stefnur Fjársýslunnar
Mannauðsstefna
Mannauðsstefnan veitir yfirsýn yfir starfsumhverfið. Hún er starfsmönnum til leiðbeiningar um ábyrgð sína, réttindi og skyldur og er ætluð til að stuðla að gagnkvæmum skilningi milli starfsmanns og vinnuveitanda. Fjársýslan leggur áherslu á liðsheild, starfsánægju, gagnkvæma virðingu og gott starfsumhverfi með öflugum hópi starfsmanna. Það er hæft starfsfólk, metnaður þess, kraftur og hollusta, sem er lykillinn að farsælum rekstri stofnunarinnar. Hjá Fjársýslunni njóta allir sömu möguleika til endurmenntunar, starfsþjálfunar, starfsframa og launa. Einelti og kynferðisleg áreitni er ekki liðin hjá Fjársýslunni.
Ráðningar og starfslok
Fársýslan leggur áherslu á að faglegt og skipulagt ráðningarferli sem miðar að því að hæfasti umsækjandinn verði ráðinn hverju sinni. Um ráðningar og starfslok og ferli þeirra að öðru leiti fer eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996.
Móttaka nýliða
Fjársýslan leggur áherslu á að nýjir starfsmenn fái hlýjar móttökur, fullnægjandi kynningu á stofnuninni og starfseminni og að aðstaða þeirra sé tilbúin á fyrsta vinnudegi. Fjársýslan tryggir að nýjir starfmenn fái viðeigandi starfsþjálfun til þess að þeir geti sinnt starfi sínu með öruggum og fullnægjandi hætti.
Starfsþróun og starfsþjálfun
Starfsþróun er á ábyrgð starfsmanns og næsta yfirmanns. Starfslýsing er fyrir öll störf hjá Fjársýslunni og eru þau grunnur að starfsmannasamtölum sem fara fram einu sinni á ári. Í starfsmannasamtölum fer fram umræða um allt sem snertir starfið. Lögð er áhersla á þarfir, hvatningu frammistöðu og starfsþróun. Í starfsmannasamtölum er lagður grunnur að fræðslu starfsmanna. Mikilvægt er að starfsfólk þekki þá möguleika sem þau hafa til stafsmenntunar og símenntunar hjá Fjársýslunni sem og möguleika hjá stéttarfélögum.
Samþætting einkalífs og starfs
Fjársýslan vill beita sér fyrir því að starfsmenn geti samræmt starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu eins vel og kostur er. Slíkt er mögulegt með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu eftir því sem við verður komið og aðstæður leyfa.
Annað
Í sérstakri starfsmannahandbók á innra neti Fjársýslunnar er gerð frekari grein fyrir möguleikum starfsmanna til starfs- og símenntunar, möguleikum til samþættingu einkalífs, styrkja og ýmislegt annað er varðar starfsumhverfi Fjársýslunnar og réttindi og skyldur starfsmanna.
Jafnréttisstefna
Markmið
Jafnréttisstefna Fjársýslunnar er gerð til að vinna að jafnri stöðu starfsmanna óháð kyni eins og getið er um í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020. Markmið þeirra laga er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allt fólk skal eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Með kyni í lögum þessum er átt við konur, karla og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá nema annars sé sérstaklega getið. Þar segir í 4. grein að atvinnurekendur skuli markvisst vinna að því að jafna stöðu kynjanna og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Leggja skal sérstaka áherslu á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum. Í 5. grein segir að stofnanir með 25 starfsmenn eða fleiri skuli setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið inn í starfsmannastefnu sína. Skal þar m.a. sérstaklega kveðið á um markmið og gerð áætlunar um hvernig þeim skuli náð til að tryggja starfsfólki þau réttindi sem kveðið er á um í 6.–14. gr.
Ábyrgð
Fjársýslustjóri ber endanlega ábyrgð á að áætluninni sé fylgt eftir.
Forstöðumenn Fjársýslunnar, bera sameiginlega ábyrgð á framgangi jafnréttismála í samræmi við áætlunina, hver fyrir sitt svið.
Mannauðsstjóri Fjársýslunnar ber ábyrgð á að áætluninni sé fylgt eftir í umboði fjársýslustjóra þ.m.t. að gera tölfræðilegar úttektir árlega er varða áætlunina, sinna eftirfylgni, endurskoða og gera tillögur um breytingar ef þörf krefur.
Starfsfólk Fjársýslunnar ber ábyrgð á því að sýna samstarfsfólki og viðskiptavinum stofnunarinnar virðingu án tillits til kynferðis, skoðana, aldurs, efnahags, trúarbragða, litarháttar, þjóðernis eða stöðu þeirra að öðru leyti.
Gildissvið
Jafnréttisstefna þessi tekur til allra starfsmanna Fjársýslunnar og er kynnt starfsmönnum árlega.
6.gr. Almennt ákvæði um launajafnrétti
Konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir fólk óháð kyni. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun. Starfsfólki skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef það kýs að gera svo. Með kjörum í þessu sambandi er, auk launakjara, átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin eru til fjár.
12. gr. Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun
Starfsþjálfun og endurmenntun
Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið jafnt konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá, sbr. þó 2. mgr. 16. gr. Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að konur, karlar og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf. Markmiðið er að jafna stöðu kynjanna innan Fjársýslunnar. Viðmiðin sem lögð eru til grundvallar við mannaráðningar skulu vera hin sömu fyrir öll kyn. Hið sama gildir um úthlutun verkefna, tilfærslu í störfum og uppsögn. Í þessu skyni skal stofnunin notast við kynhlutlaus viðmið um frammistöðu í starfi.
13. gr. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs.
Samþætting einkalífs og starfs
Fjársýslan vill beita sér fyrir því að starfsmenn geti samræmt starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu eins vel og kostur er, óháð kyni. Ráðstafanir þær skulu m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsfólks og þarfa atvinnulífs, þar með talið að starfsfólki sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna brýnna fjölskylduaðstæðna. Slíkt er mögulegt með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu eftir því sem við verður komið og aðstæður leyfa
14. gr. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni
Úrræði og leiðbeiningar (verkferlar) eru kynntar starfsmönnum a.m.k. einu sinni á ári. Yfirmenn stofnana skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað. Kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni og einelti er ekki liðið hjá Fjársýslunni. Á innri samskiptasíðu stofnunarinnar eru leiðbeiningar fyrir starfsfólk og stjórnendur ef bregðast þarf við, komi slík mál upp. Nýjum starfsmönnum er sérstaklega bent á þessar upplýsingar. Einnig eru aðgengilegar á innri samskiptasíðu fræðslu- og leiðbeiningarit fyrir starfsfólk til að átta sig betur á óviðeigandi hegðun á vinnustað, hvernig á að bregðast við slíku og ítarlegri leiðbeiningar fyrir stjórnendur til að fyrirbyggja og bregðast við einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Starfsfólki og stjórnendum er bent sérstaklega á hvar þessar upplýsingar megi finna með tölvupósti a.m.k. einu sinni á ári og öll hvött til að kynna sér þær.
Aðgerðaráætlun fyrir jafnréttisstefnu Fjársýslunnar
Einu sinni á ári eru teknar saman kyngreindar upplýsingar um:
fjölda starfsmanna eftir sviðum og stöðugildum
fjölda stjórnenda eftir sviðum og stöðugildum
auglýst störf á árinu, fjölda karla og kvenna sem sóttu um störfin. Þetta er liður í að jafna stöðu kynjanna innan Fjársýslunnar og koma í veg fyrir að störf innan stofnunarinnar flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.
Upplýsingar um fjölda starfsmanna og fjölda stjórnenda eru birtar í ársskýrslum Fjársýslunnar sem má finna á vef Fjársýslunnar. Upplýsingar um ráðningar eru birtar á innri samskiptasíðu hverju sinni.
Komi fram ósk frá umsækjanda um rökstuðning á ráðningu skulu þær upplýsingar fylgja tölfræðiupplýsingum í skýrslu til fjársýslustjóra. Komi fram aðrar upplýsingar um að ómálefnalegar ástæður hafi ráðið ráðningu eða jafnréttislög brotin skal það einnig koma fram í tölfræðiskýrslu.
Kyngreindar upplýsingar eru teknar saman fyrir 1.febrúar ár hvert. Skýrsla er send fjársýslustjóra sem boðar fund telji hann vafamál hvort ómálefnalegar ástæður hafi legið að baki ráðningu eða jafnréttislög brotin. Komi upp mál þar sem grunur leikur á að jafnréttislög hafi verið brotin skal brugðist við sem fyrst með tilkynningu og upplýsingum til fjársýslustjóra, sem í samvinnu við mannauðsstjóra mun yfirfara málið og beita viðeigandi úrræðum. Öll slík mál skulu vistuð í skjalavistunarkerfi Fjársýslunnar. [Áb. mannauðsstjóri]
Jafnlaunavottun
Samkvæmt jafnlaunastefnu fer árlega fram (fyrir lok feb ár hvert) launagreining allra starfsmanna. Kannað er hvort um kynbundinn launamun sé að ræða. Bregðast skal við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum og eftirliti. Ef um óútskýrðan mun hjá einstaklingi er að ræða skal bregðast við strax. [Áb. mannauðsstjóri fyrir 1. feb ár hvert]
Starfsþjálfun og endurmenntun
Í árlegri skýrslu um starfsmannamál skal gerð samantekt þar sem fram kemur hversu margir karlar og hversu margar konur í sambærilegum störfum hafa sótt endurmenntun. Nýliðum skulu kynntar verklagsreglur um námskeið og endurmenntun í starfsmannahandbók. Komi í ljós munur á aðgengi starfsfólks til endurmenntunar, á grundvelli kyns, skal grípa til aðgerða. [Áb. mannauðsstjóri fyrir 1. feb ár hvert]
Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs
Í viðverustefnu Fjársýslunnar kemur fram sá sveigjanleiki sem stofnunin veitir starfsfólki sínu óháð kynferði, innan og umfram kjarasamninga og vinnurétt. Í henni kemur m.a. fram að Fjársýslan vill standa vörð um velferð starfsfólks og að starfsumhverfi þeirra sé heilsusamlegt. Fjársýslan vill stuðla að samþættingu vinnu og einkalífs þannig að Fjársýslan sé fjölskylduvænn vinnustaður. Fjársýslan vill stuðla að farsælli endurkomu starfsfólks til vinnu eftir langvarandi fjarvistir vegna veikinda eða slysa og/eða ef starfsgeta þeirra breytist. Starfsfólk er upplýst um lögbundin réttindi vegna veikinda barna svo og fæðingar- og foreldraorlofs með því að hafa aðgengilegar upplýsingar á innri samskiptasíðu Fjársýslunnar. Starfsfólk óháð kyni er hvatt til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs og veikindadaga vegna veikinda barna.
[Áb. mannauðsstjóri fyrir 1. feb ár hvert]
Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni
Eineltisáætlun Fjársýslunnar sem nær yfir einnig kynbundið ofbeldi má finna á ytri og á innri samskiptasíðu Fjársýslunnar. Áætlunin er reglulega kynnt fyrir starfsfólki (tvisvar á ári og oftar ef þurfa þykir) ásamt jafnréttisstefnu, upplýsingum um kynbundið ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni. Vísað er í fræðsluefni á innri samskiptasíðu Fjársýslunnar ásamt leiðbeiningum, m.a. ferlum fyrir starfsfólk og stjórnendur til að átta sig betur á óviðeigandi hegðum á vinnustað og hvernig á að bregðast við slíku. Starfsfólk er hvatt til að upplýsa um verði það fyrir eða verði vitni að kynbundnu ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni innan vinnustaðarins eða á viðburðum á vegum hans og er lögð mikil áhersla á að það njóti verndar og stuðnings á meðan og á eftir ef slík mál koma upp. [Áb. mannauðsstjóri fyrir lok febrúar og nóvember ár hvert]
Endurskoðun
Áætlunin skal endurskoðuð á þriggja ára fresti. Næsta endurskoðun er því 24.01.2025.
Reykjavík 22.01.2022
Jafnréttisáætlun Fjársýslunnar febrúar 2022
______________________________
Pétur Ó. Einarsson
Mannauðsstjóri
Fjársýsla ríkisins (FJS) sér um fjármál ríkisins í samræmi við 64 gr. laga um opinber fjármál 2015/123.
FJS er umhugað um persónuvernd og öryggi gagna sem hún höndlar með. Í persónuverndarstefnu kemur fram í hvaða tilgangi persónuupplýsingum er safnað og hvernig farið er með slíkar upplýsingar. Réttindi einstaklinga til aðgangs að persónuupplýsingum kemur fram í lögum um persónuvernd 2018/90 og upplýsingalögum 2012/140.
Allar fyrirspurnir um persónuvernd skal senda beint til Persónuverndarfulltrúa FJS á netfangið personuvernd@fjs.is. Hann mun svara öllum fyrirspurnum um meðhöndlun persónuupplýsinga og persónuverndarstefnu FJS.
Allar upplýsingar um einstaklinga, hvort sem þær koma frá þeim sjálfum, opinberum aðila eða yfirvöldum eru meðhöndlaðar samkvæmt lögum 2018/90 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679.
Persónuverndarstefna er endurskoðuð reglulega en fyrst samþykkt 10.07.2018 og útgefin af fjársýslustjóra.
Söfnun persónuupplýsinga
Persónuupplýsingar eru upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling, beint eða óbeint, almennar, fjárhagslegar eða viðkvæmar.
FJS safnar upplýsingum um aðila til að geta lagt á og innheimt skatta og önnur gjöld sem þeim ber að greiða skv. lögum, reglugerðum og samningum. Hér er um að ræða persónuupplýsingar frá opinberum aðilum sem einstaklingur er í sambandi við. FJS safnar einnig upplýsingum um launþega ríkisins til að geta staðið skil á launum og launatengdum greiðslum skv. samningi.
FJS safnar upplýsingum um:
Opinbera starfsmenn í gegnum launakerfi ríkisins, þar er helst að nefna launakjör, forsendur launaútreiknings, aðild að verkalýðsfélagi, viðveru, skráningu á fjarveru og frádráttarliði.
Gjaldendur opinberra gjalda, auk nafns, kennitölu og heimilisfangs er haldið utan um ýmsar upplýsingar um fjárhagsleg málefni s.s. álagningu, bankareikninga, netföng, stöðu á innheimtu gjalda og skatta fyrir hönd ríkissjóðs, ríkisstofnana og annarra opinberra aðila. Þá er einnig haldið utan um upplýsingar sem tengjast greiðslum til einstaklinga vegna líkamlegra einkenna, andlegra eða félagslegra tengsla s.s. bætur til bótaþega, vaxtabætur og barnabætur.
Viðskiptavini opinberra stofnana, en þar er haldið utan um almennar skuldir eða kröfur.
Lán til lánþega og skuldaviðurkenningar.
Notkun persónuupplýsinga
FJS nýtir aldrei persónuupplýsingar í öðrum tilgangi en þeim sem þær voru safnaðar fyrir. Persónuupplýsingum er aldrei miðlað til 3ja aðila nema að fengnu samþykki eða í samræmi við samninga eða lög. FJS er þó heimilt að miðla persónuupplýsingum til vinnsluaðila sem er þjónustuveitandi, til hýsingaraðila og inn á island.is þar sem þær eru aðgengilegar viðkomandi í gegnum innskráningu á vefinn. Persónuupplýsingar gætu einnig verið notaðar til að svara fyrirspurnum frá opinberum valdhöfum eins og Ríkisendurskoðun, Fjármálaráðherra og Alþingi en eru gerðar ópersónugreinanlegar við fyrsta tækifæri.
Lögmæti vinnslu og varðveislu persónuupplýsinga
Allar persónuupplýsingar sem FJS hefur í sínum kerfum og unnið er með, byggja á lagaheimild, samningum eða háð samþykki hins skráða. Í vinnsluskrá kemur fram á hvaða heimildum vinnslan er framkvæmd.
FJS leggur mikla áherslu á upplýsingarvernd, hefur sett sér upplýsingaöryggisstefnu og gerir almennt ráðstafanir til að tryggja öryggi upplýsinga. Öll gögn FJS eru geymd á öruggum þjónum hjá hýsingaraðilum og vistuð innan evrópska efnahagssvæðisins. Þegar gagnasending á sér stað í gegnum netið er ávallt til staðar áhætta en FJS reynir eftir fremsta megni að tryggja öryggi slíkra sendinga.
FJS hefur útbúið sérstakan verkferil um hvernig tilkynna beri öryggisbrot, hvenær skuli tilkynna og hverjum.
Persónuverndarfulltrúi hefur m.a. það hlutverk að gera úttektir á öryggi persónuupplýsinga og metur þörf fyrir úrbætur.
FJS er afhendingarskyldur aðili til Þjóðskjalasafns skv. lögum um opinber skjalasöfn 2014/77 frá 28. maí og geymir því öll gögn fram að skilum til Þjóðskjalasafns í samræmi við settar reglur þar um.
Friðhelgi og vafrakökur
Við vekjum athygli á því að þegar farið er inn á vef FJS vistast vafrakökur (e. cookies) í tölvu notandans. Vafrakökur eru textaskrár sem eru notaðar til þess að greina heimsóknir á vefsíðuna eftir IP-tölum. Umferð á vefinn er mæld með Google Analytics sem vistar IP tölu, vef, gerð vafra, stýrikerfi og leitarorð ef það er notað. Þessar upplýsingar eru eingöngu notaðar til að þróa vefinn og bæta þjónustu við notendur hans. Aðrar vefsíður geta ekki lesið upplýsingarnar sem eru geymdar í vafrakökunni. Allir vafrar bjóða upp á takmörkun á notkun á vafrakökum eða að slökkt sé á þeim, en það er stillingaratriði hjá notanda.
SSL skilríki
Vefur FJS notast við SSL-skilríki. Með þeim eru upplýsingar sem sendar eru milli notenda vefmiðlara dulkóðaðar og gögnin sem flutt eru á milli skila sér á réttan stað á öruggari máta.
Stefna Fjársýslunnar (FJS) er að allt starfsfólk njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur grunnur sé til staðar.
Fjársýslustjóri ber ábyrgð á launastefnu FJS. Hann ber einnig ábyrgð að þeim lagalegu kröfum og öðrum kröfum sem tengjast jafnlaunakerfinu sé framfylgt. Mannauðstjóri FJS er fulltrúi yfirstjórnar varðandi jafnlaunakerfi og er ábyrgur fyrir innleiðingu og viðhaldi þess í samræmi við staðalinn ÍST 85.
Fjársýslan greiðir laun sem taka mið af þeim kröfum sem starfið gerir um þekkingu, hæfni og ábyrgð. Til að framfylgja jafnlaunastefnu skuldbindur stofnunin sig til að skjalfesta, innleiða, viðhalda og bæta stöðugt stjórnun jafnlaunakerfis í samræmi við kröfur staðalsins og ákvarða hvernig kröfur hans verða uppfylltar. Stofnunin hefur innleitt verklag og skilgreint viðmið við ákvörðun launa þar sem hver og einn fær greitt fyrir starf sitt úr frá verðmæti þess óháð kyni, kynvitund og öðrum ómálefnalegum ástæðum.
Markmið stofnunarinnar er að vera eftirsóttur vinnustaður og að starfsfólk hafi jöfn tækifæri í starfi óháð kyni. Óútskýrður launamunur sé 0% og mældur launamunur innan 15% +/- vikmarka.
Til þess að ná því markmiði mun stofnunin:
Innleiða vottað jafnlaunakerfi sem byggist á jafnlaunastaðlinum IST 85, það skjalfest og því viðhaldið.
Framkvæma launagreiningu a.m.k. einu sinni á ári þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf og athugað hvort mælist munur á launum eftir kyni og kynna helstu niðurstöður fyrir starfsfólki.
Bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum og eftirliti. Ef um óútskýrðan mun er að ræða hjá einstaklingi gagnvart öðrum einstaklingi eða hóp með sömu ábyrgð og hæfni skal bregðast við strax við en ef um óútskýrðan mun er að ræða milli hópa skal leiðrétta það frá og með næstu áramótum.
Gera innri úttekt og halda rýni stjórnenda árlega.
Fylgja viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta hlítni við lög.
Samþykkt jafnlaunastefna skal vera aðgengileg á innri samskiptasíðu stofnunarinnar.
Jafnlaunastefnan er órjúfanlegur hluti af launastefnu FJS.
Rvk. 15.04.2024
Ábyrgðarmaður jafnlaunastefnunnar er
Ingþór Karl Eiríksson, fjársýslustjóri
Fjársýsla ríkisins (FJS) ætlar að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá starfseminni og þeim áhrifum sem losunin hefur í för með sér. FJS vill leggja sitt af mörkum til að markmiðum Parísarsamningsins sé náð og taka þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.
FJS hefur kolefnisjafnað losun sína frá árinu 2019 með kaupum á vottuðum kolefniseiningum og mun framvegis kolefnisjafna alla eftirstandandi losun. Fram til 2030 stefnir FJS á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda samtals um 40% með áherslu á að:
Fylgja viðmiðum grænna skrefa fyrir ríkisstofnanir
Færa Grænt bókhald
Efla vistvæna varðveislu skjala
Efla rafræna stjórnsýslu
Draga úr ferðum starfsfólks með áherslu á fjarfundi og breytt vinnulag
Draga úr beinni og óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda í allri starfsemi stofnunarinnar í samræmi við loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar
Fara vel með auðlindir svo sem raforku, notkun á heitu vatni og pappír
Draga úr myndun úrgangs og hámarka endurvinnslu
Kaupa inn vistvæna vöru og þjónustu
Kolefnisjafna losun okkar með ábyrgum hætti
Efla umhverfisvitund starfsfólks með fræðslu
Hvetja og styðja starfsfólk til vistvæns lífstíls
Láta gott af sér leiða í umhverfismálum
Framtíðarsýn
Árið 2030 verður FJS orðin til fyrirmyndar í loftslagsmálum, hefur dregið saman losun sína á CO2 um 40% og þar með náð markmiðum Parísarsamkomulagsins og verið kolefnishlutlaus í meira en tíu ár.
Gildissvið
Stefna þessi tekur til umhverfisáhrifa af innri rekstri FJS og varðar allt starfsfólk stofnunarinnar. FJS er með eina starfsstöð.
Umfang
Umhverfis- og loftslagsstefna FJS fjallar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt leiðbeiningum um loftslagsstefnur opinberra aðila. Stefnan tekur til eftirfarandi umhverfisþátta sem unnt er að fylgjast með og mæla hverju sinni:
Samgöngur
Losun GHL vegna flugferða starfsfólks innanlands
Losun GHL vegna flugferða starfsfólks erlendis
Losun GHL vegna aksturs á leigubílum
Fjöldi samgöngusamninga sem stofnunin gerir við starfsfólk
Orkunotkun
Rafmagnsnotkun stofnunarinnar
Heitavatnsnotkun stofnunarinnar
Úrgangur
Losun GHL vegna lífræns úrgangs
Losun GHL vegna blandaðs úrgangs
Heildarmagn úrgangs sem fellur til
Magn útprentaðs skrifstofupappírs
Endurvinnsluhlutfall
Innkaup
Hlutfall umhverfisvottaðs skrifstofupappírs sem stofnunin kaupir
Hlutfall umhverfisvottaðrar prentþjónustu sem stofnunin kaupir
Hlutfall umhverfisvottaðra ræsti- og hreinsiefna sem stofnunin kaupir sjálf
Hlutfall umhverfisvottaðrar ræstiþjónustu sem stofnunin kaupir
Hlutfall umhverfisvottaðra matvæla sem stofnunin kaupir
Magn rekstrarvara sem stofnunin kaupir
Magn raftækja sem stofnunin kaupir
Magn prenthylkja sem stofnunin kaupir
Eftirfylgni og árangur
Stefnunni er fylgt eftir með innleiðingu Grænna skrefa í ríkisrekstri, sem hófst hjá FJS í mars 2019.
Árangursmælingar eru gerðar í gegnum Grænt bókhald þar sem upplýsingum um samgöngur, úrgangsmyndun, orkunotkun, neyslu og kolefnislosun frá starfseminni er safnað saman.
Fyrir 1. apríl ár hvert er Grænt bókhald fyrra árs tekið saman og því skilað í Gagnagátt Umhverfisstofnunar. Sérfræðingur á Rekstrarsviði sér um að taka bókhaldið saman.
Niðurstöður Græns bókhalds eru á vefsíðu Grænna skrefa ásamt niðurstöðum annarra ríkisstofnana og á vefsíðu FJS. Þær verða m.a. nýttar til að greina tækifæri til úrbóta, sýna fram á gagnsemi stefnunnar og halda starfsfólki upplýstu um hvernig miðar við framkvæmd hennar.
Kolefnisjöfnun
Starfsemi FJS er kolefnisjöfnuð í gegnum Kolvið sem er í samstarfi við Landvernd og Skógræktarfélag Íslands.
Umhverfis- og loftslagsstefna FJS
Hefur það hlutverk að stuðla að vernd umhverfisins og halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi stofnunarinnar í lágmarki. Stefnan er einnig hluti stefnumörkunar FJS um samfélagslega ábyrgð þar sem starfsemi stofnunarinnar tekur tillit til félagslegra, umhverfislegra og siðferðislegra þátta samfélagsins. Stefnan tekur til allrar starfsemi FJS og tekur mið af:
Leiðbeiningum Umhverfisstofnunar um loftslagsstefnur opinberra aðila
Skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamkomulaginu
Aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum
Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
Grænum skrefum
Umhverfis- og loftslagsstefnan er samþykkt og rýnd árlega af yfirstjórn FJS og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað á vefsíðu FJS.
Stefnan rýnd og samþykkt af yfirstjórn Fjársýslu ríkisins 6. desember 2021.
FJS ber ábyrgð á skipulegu vinnuverndarstarfi, er tekur til stofnunarinnar í heild og allra vinnuaðstæðna sem geta haft áhrif á öryggi og heilsu starfsmanna.
Öryggisstefna FJS miðast við öruggt starfsumhverfi og góð starfsskilyrði
Markmiðið er að fræða og þjálfa starfsmenn á sviði öryggis- og vinnuverndarmála
Öryggi starfsmanna er hluti af gæðastefnu FJS
Öryggisnefnd
Öryggisnefnd FJS er skipuð fjórum starfsmönnum. Nefndin skipar sérstaka öryggisfulltrúa á hverri hæð.
Ítarlegar upplýsingar um öryggismál og brunavarnir er að finna á innri síðu FJS
Reykskynjarar, slökkvitæki og brunaslöngur eru á hverri hæð
Hjartastuðtæki er á fyrstu hæð á Rekstrarsviði
Öryggisstefna FJS er endurmetin árlega
Fræðsla og þjálfun
Öryggisnefnd FJS býður reglulega upp á fræðslu um brunavarnir, endurlífgun og flóttaáætlun vegna eldsvoða o.fl. í samvinnu við Slökkvilið Reykjavíkur
Ennfremur er samráð við iðjuþjálfa, sem fer yfir vinnusvæði starfsmanna og gerir tillögur um úrbætur eftir því sem þurfa þykir
Það er stefna FJS að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti og kynferðisleg áreitni verður undir engum kringumstæðum umborin á vinnustöðum stofnunarinnar. Meðvirkni starfsmanna í einelti er fordæmd.
Skilgreining stofnunarinnar á hvað einelti og kynferðisleg áreitni er styðst við reglugerð nr. 1000/2004 en þar segir í 3. gr.
Skilgreining á einelti
Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir
Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda leiði slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til þeirrar háttsemi sem lýst er hér að framan.Áætlunin nær til og varðar alla starfsmenn Fjársýslu ríkisins. Markmið hennar er að stemma stigu við einelti, kynferðislegri áreitni og annarri ótilhlýðilegri háttsemi á vinnustað. Stefna Fjársýslunnar er að kynferðisleg áreitni og einelti er ekki liðið innan stofnunarinnar.
Ferli
Telji starfsmaður sig verða fyrir einelti eða kynferðislegu áreiti skal hann leita til þess málsaðila sem hann/hún treystir s.s.
Mannauðsstjóra
Yfirmanns þess sviðs sem þeir starfa á
Fjársýslustjóra
Fulltrúa stéttarfélags / trúnaðarmanns
Sú regla skal viðhöfð að upplýsa mannauðsstjóra og fjársýslustjóra um öll mál sem þarfnast skoðunar. Hlutverk mannauðsstjóra er m.a. að skrá feril einstakra mála, geyma upplýsingar í skjalasafni starfsmannastjóra og sjá til þess að farið sé með mál í trúnaði. Umboð og vald til þess að fjalla um eða rannsaka mál og mæla fyrir um úrræði liggur hjá mannauðsstjóra og fjársýslustjóra, ekki hjá næsta yfirmanni eða fulltrúa stéttarfélags með eftirfarandi undantekningu; sé mannauðsstjóri talinn gerandi í eineltismáli skal trúnaðarmaður eða yfirmaður vísa málinu til fjársýslustjóra til skoðunar. Sé fjársýslustjóri talinn gerandi í eineltismáli skal mannauðsstjóri vísa málinu til ráðuneytis stofnunarinnar til skoðunar.
Tilkynningarskylda
Ekki er hægt að taka á einelti eða kynferðislegri áreitni nema með samþykki meintsþolanda. Þó er starfsmönnum skylt að upplýsa mannauðs- og/eða fjársýslustjóra telji þeir sig vita af slíkri hegðun innan stofnunarinnar. Slík samtöl eru trúnaðarsamtöl.
Málsmeðferð
Sá aðili sem hefur með úrlausn málsins að gera ákvarðar í samráði við þolandann hvertframhaldið verður. Hægt er að velja á milli óformlegs eða formlegs inngrips.
Óformlegt inngrip
Hlutlaus athugun á málsatvikum er framkvæmd og felur m.a. í sér að leitað er upplýsinga hjá þolanda og meintum geranda. Þolanda er veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf eftir því sem við á. Aðrir innan vinnustaðarins eru ekki upplýstir um málið. Mannauðsstjóri og/eða yfirmaður miðla málum milli meints þolanda og meints geranda (ræðir við báða aðila um eðli vandans og lausnir á honum).
Formlegt inngrip
Kerfisbundin rannsókn á máli og viðbrögð í framhaldi af rannsókn. Mál er rannsakað af utanaðkomandi sérfræðingi en yfirmenn stofnunar velja úrlausnarleið og sjá til þess að málinu ljúki.
Afleiðingar
Ef einelti er staðfest að lokinni athugun fær gerandi skriflega áminningu. Hann fær leiðsögn og gæti einnig verið færður til í starfi. Láti gerandi ekki segjast og viðhaldi eineltinu leiðir það til uppsagnar hans úr starfi skv. lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.
Eftirfylgni
Nauðsynlegt er að fylgja málinu eftir hvort sem óformleg eða formleg leið er farin. Eftirfylgni felst m.a. í því að fylgjast með líðan og félagslegri stöðu geranda og þolanda. Veita geranda og/eða þolanda viðeigandi stuðning og hjálp. Meta þarf árangur inngrips og endurskoða ef ástæða þykir til. Þolanda og geranda er boðinn sálfræðistuðningur eftir því sem við á og þörf krefur. Eftirfylgni er á ábyrgð þess aðila sem hefur með úrlausn málsins að gera, venjulega mannauðsstjóra.
FJS vill stuðla að því að starfsfólk noti vistvænan, hagkvæman og heilsusamlegan ferðamáta. Stofnunin vill leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfi og heilsu starfsfólks síns, sýna gott fordæmi og efla vitund fólks um vistvænar samgöngur. Með vistvænum samgöngumáta er átt við allan ferðamáta annan en að ferðast til og frá vinnu í einkabíl, svo sem að ganga, hjóla eða ferðast með strætisvögnum.
FJS hvetur starfsfólk sitt til að nýta sér almenningssamgöngur, hjóla eða ganga til og frá vinnu.
FJS býður upp á aðstöðu á vinnustað fyrir þá sem stunda vistvænar samgöngur s.s. hjólagrind fyrir framan Vegmúla 3 og sturtuaðstöðu á fyrstu hæð hússins.
Fyrir það starfsfólk sem að jafnaði notar vistvænan samgöngumáta greiðir FJS leigubílakostnað í neyðartilvikum á vinnutíma.
Samgöngustyrkur/ samkomulag
Starfsfólk sem notar vistvænan samgöngumáta getur gert samgöngusamning við FJS. Rekstrarsvið sér um allt utanumhald samgöngustyrkja. Skilyrði fyrir veitingu styrks eru eftirfarandi.
Styrkurinn gildir í 1 ár frá undirritun samnings en nægir að senda mannauðsstjóra tölvupóst þess eðlis eða hringja og láta vita að starfsmaður hyggist taka þátt í vistvænum ferðamáta og hvernig skv 3.gr þá lið a. eða b. Eins ef starfsmaður segir upp samningi þá nægir tölvupóstur eða hringja.
Samgöngustyrkur er undanþeginn staðgreiðslu og fjárhæð hans er kr. 7000 á mánuði sbr. reglur um skattmat RSK. Greitt er inn á bankareikning viðkomandi starfsmanns og miðast greiðslan við gildandi samning og greiðist með launum næsta mánaðar á eftir.
Það starfsfólk sem ferðast til og frá vinnu að jafnaði í 60% tilvika (þrjá daga í viku) á rétt á samgöngustyrk frá staðfestingu um þátttöku. Starfsmaður velur annan hvorn eða báða ferðamáta :
a. Ferðast að jafnaði með strætisvagni til og frá vinnu
b. Hjóla eða ganga að jafnaði til og frá vinnuSamningur þessi gildir á ofangreindu tímabili og er uppsegjanlegur af hálfu beggja aðila með eins mánaðar fyrirvara.
Starfsmaður skuldbindur sig til að svara könnun í lok hvers samningstímabils um ferðatíðni og ferðamáta en mögulega verða niðurstöður notaðar til að vinna tölfræðilegar upplýsingar um ferðamáta starfsfólks.
Nöfn starfsmanna sem skrifa undir samninginn eru birt á innra neti FJS til hvatningar öðrum um að nýta sér styrkinn.
Fjársýsla ríkisins (FJS) hvetur og styður starfsfólk til að auka hæfni sína með fjölbreyttri fræðslu og símenntun á sviðum sem tengjast fagsviði þeirra, starfi og starfsþróun. Símenntunarstefna FJS miðar að því að starfsfólk og stofnunin sé í stakk búin til að mæta nýjum áskorunum og þörfum.
Ábyrgð og hlutverk
Starfsfólk ber ábyrgð á því að sýna frumkvæði við að sækja sér þá þekkingu sem þeir þurfa til að hafa gott valdi á starfi sínu og verkefnum í nútíð og framtíð. Starfsfólk ber ábyrgð á því að skrá símenntun sína í mannauðshluta ORRA.
Stjórnendur bera ábyrgð á því að veita starfsmönnum stuðning, leiðbeina og hvetja starfsmenn til að auka hæfni sína og þekkingu sem samræmist stefnu og markmiðum FJS. Þeir bera ábyrgð á því að yfirfara, sannreyna og samþykkja símenntun starfsmanna gegnum mannauðshluta ORRA.
Námskeiðs- og ráðstefnubeiðnir eða aðrar óskir starfsmanna um símenntun sem þarfnast samþykkis FJS eiga sér stað þegar þeirra er þörf. Í öllum tilfellum þar sem fræðsla og símenntun er á vinnutíma, og/eða kostnaður fellur á FJS skal byrja á því að ræða við næsta yfirmann og leita eftir samþykki. Stjórnendur koma slíkum beiðnum í réttan farveg og skulu leitast við að svara starfsmanni sem fyrst.
Mannauðsstjóri er stjórnendum og öðru starfsfólki til ráðgjafar varðandi starfsþróunar- og fræðslumál.
Stuðningur FJS til símenntunar starfsmanna
Stuðningur FJS getur verið í formi ólaunaðs eða launaðs leyfis og/eða þátttöku í öðrum kostnaði eftir atvikum. Sé um almennt nám að ræða en ekki sértækt eða vinnutengt nám skal ætíð leita í sjóði stéttarfélaga.
Endurmenntunaráætlun FJS vegna ákvæðis í kjarasamningum
Hjá FJS er í gangi Endurmenntunaráætlun FJS vegna ákvæðis í kjarasamningum um endurmenntun skv. grein 10.1.1. í kjarasamningum FHSS og FSS.
Hjá FJS er starfandi fræðslunefnd. Í nefndinni sitja fjársýslustjóri, forstöðumaður rekstrarsviðs og mannauðsstjóri. Tilgangur nefndarinnar er að fara yfir umsóknir og veita námsleyfi eftir reglum sem hún hefur sett sér og samrýmast ákvæðum grein 10.1.1 kjarasamnings FHSS/FSS.
ÚTHLUTUNARREGLUR NEFNDARINNAR
1. Umsækjandi skal vera fastráðinn starfsmaður FJS. Námsleyfi er miðað við það starfshlutfall sem hann er í þegar sótt er um leyfið.
2. Sækja má um námsleyfi á launum vegna endurmenntunar sem sannarlega nýtist starfsmanni að mati fræðslunefndar og fellur að starfsþróunaráætlun stofnunarinnar.
3. Að öllu jöfnu veitir fræðslunefnd leyfi vegna náms sem veitir fullgildar námseininga og/eða nýtist í starfi.
4. Námsleyfi er einungis veitt þann tíma sem nám stendur sannarlega yfir þ.e kennslustundir og próftími. Mælst er til þess að starfsfólk sem ætlar í nám taki fullt nám og þá fullt námsleyfi. Einungis er veitt námsleyfi skv. gr. 10.1.1 þann tíma sem umsækjandi hefur áunnið sér samkvæmt kjarasamningi. Allt nám undir 15 ECTS-einingum eða samsvarandi er unnið samhliða vinnu. Í fjarnámi gildir að veitt er leyfi prófadag og ef um er að ræða vinnuhelgar. Slíkar upplýsingar skulu liggja fyrir í umsókn um námsleyfi.
5. Fjöldi námsleyfa takmarkast 10% á ári, annað hvort miðað við fjölda vikna eða fjölda starfsmanna í stofnuninni í heild eða á hverju sviði.
6. Umsóknir skulu berast mannauðsstjóra a.m.k. 4 mánuðum áður en nám á að hefjast, að öðrum kosti er ekki tekið við umsókninni. Mannauðsstjóri boðar fræðslunefnd á fund svo skjótt sem auðið er eftir að umsókn hefur borist.
7. Ef umsóknir sem berast eru það margar að velja þarf á milli skv. lið 5 þá forgangsraðar fræðslunefnd úthlutunum á þann hátt sem talið er að nýtist best stofnuninni. Þó getur sami starfsmaður ekki fengið úthlutað námsleyfi umfram annan hafi hann áður fengið námsleyfi nema sérstakar ástæður liggi að baki að mati fræðslunefndar.
8. Víkja má frá lið 6 og 7 ef fræðslunefnd telur námið vera sérstaklega mikilvægt fyrir stofununina.
9. Fræðslunefnd heldur utan um umsóknir og ákvarðanir og er það á ábyrgð mannauðsstjóra.
10. Reglur þessar gilda frá og með 1.janúar 2022.
Stofnanasamningar
Í stofnanasamningum eru ákvæði um starfsnám, viðbótarmenntun og aðra símenntun og er starfsfólk kvatt til að kynna sér þau.