Fara beint í efnið

Nafnastimplar fyrir framleiðendur og innflytjendur eðalmálma

Ef þú framleiðir eða flytur inn vörur sem unnar eru úr eðalmálmum þarftu að sækja um skráningu á nafnastimpli hjá HMS.

Stimpillinn auðkennir framleiðanda, seljanda eða innflytjenda vörunnar. Hann tryggir rekjanleika varanna, verndar neytendur og stuðlar að sanngjarnri samkeppni. Nafnastimpill gerir þér einnig kleift að selja vörur erlendis.

Dæmi

  1. Þú vilt framleiða skartgripi úr gulli.

  2. Þú sækir um nafnastimpilinn AAA og merkir skartgripina með honum ásamt hreinleikastimpli.

  3. Þú merkir skartgrip úr gulli með AAA 585, sem vísar bæði í þig og 58,5% innihalds af hreinu gulli.

Eðalmálmar

Vörur unnar úr eðalmálmum eru vörur sem eru framleiddar að hluta eða að öllu leyti úr góðmálmi eða málmblöndu.

  • Gull

  • Silfur

  • Platína

  • Palladíum

Sækja um

Umsókn um nafnastimpil fyrir framleiðendur og innflytjendur eðalmálma

Í umsókn þarf að tilgreina nafn, kennitölu og heimilisfang einstaklings eða fyrirtækis.

Skilyrði

Gakktu úr skugga um að nafnastimpillinn sem þú óskar eftir sé ekki þegar í notkun á lista HMS yfir viðurkennda nafnastimpla.

Nafnastimpill getur ýmist verið stafaruna eða merki, til dæmis vörumerki fyrirtækis.

Stafaruna

  • Í stafarunu mega vera bókstafir sem tengjast nafni umsækjanda, bæði í hástöfum og lágstöfum.

Merki og tákn

  • Merki og tákn þarf að fá samþykkt af Hugverkastofu.

  • Merki og tákn mega ekki vera svo lík öðrum nafnastimpli að það geti valdið ruglingi.

Fylgigögn

Ef þú vilt að nafnastimpill þinn sé merki, en ekki stafaruna, þarf að fylgja umsókninni:

  • Vottorð frá Hugverkastofu ef þú vilt nota vörumerki sem merki.

  • Teikning af stimpli þar sem stærð merkisins kemur fram.

  • Mynd af stimpli.

Umsókn samþykkt

Þú færð staðfestingu í tölvupósti þegar umsókn er móttekin. Innan fárra daga færðu annan tölvupóst frá HMS þar sem fram kemur hvort umsókn hafi verið samþykkt.

HMS sendir greiðsluseðil í heimabanka. Þegar þú hefur greitt hann telst nafnastimpillinn viðurkenndur og mun birtast á lista nafnastimpla á vefsíðu HMS.

Umsókn synjað

HMS mun hafa samband með tölvupósti ef stofnunin synjar umsókninni vegna ágalla, til dæmis ef nafnastimpill er þegar í notkun eða merki telst of líkt öðrum nafnastimpli.

Kostnaður

Gjald við umsókn nafnastimpils er 11.000 krónur.

HMS sinnir eftirliti með vörum úr eðalmálmum. Einstaklingar eða fyrirtæki í rekstri þurfa að greiða 13.000 krónur á ári í eftirlitsgjald sem greiðist í febrúar ár hvert. Greiða þarf eftirlitsgjald fyrir hverja starfsstöð.

Reglugerð um vörur unnar úr eðalmálmum.