Fara beint í efnið

Lýðheilsuvísar

Svæðisbundnir lýðheilsuvísar

Hvers vegna lýðheilsuvísar?

Birting svæðisbundinna lýðheilsuvísa er liður í því að veita yfirsýn yfir lýðheilsu á hverju búsetusvæði fyrir sig í samanburði við landið í heild. Lýðheilsuvísum er ætlað að auðvelda heilbrigðisþjónustu og sveitarfélögum að greina stöðuna í eigin umdæmi, finna styrkleika og áskoranir og skilja þarfir íbúa þannig að hægt sé að vinna með markvissum hætti að því að bæta heilsu og líðan.

Hvaða þættir hafa áhrif á heilsu og líðan?

Heilsa og líðan geta verið breytileg eftir þáttum sem ekki er hægt að breyta, s.s. aldri, kyni og erfðafræðilegum þáttum en einnig þáttum sem hafa má áhrif á. Þar má nefna lifnaðarhætti á borð við áfengis- og tóbaksneyslu, mataræði og hreyfingu, samskipti við fjölskyldu og vini auk lífsskilyrða eins og menntun, atvinnu, húsnæði, heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þessir þættir geta ýmist stuðlað að betri heilsu eða aukið líkur á sjúkdómum. Aðgerðir sem stuðla að bættu vinnuumhverfi og skólaumhverfi geta t.d. stuðlað að betri heilsu og líðan og dregið úr ójöfnuði. Svæðisbundnir lýðheilsuvísar geta nýst þeim samfélögum sem vilja leggja áherslu á heilsu og líðan þegna sinna með aðild að Heilsueflandi samfélagi og Heilsueflandi skóla.

Svæðisbundinn munur á heilsu – ójöfnuður

Munur á heilsu og líðan eftir svæðum er þekktur um allan heim. Til þess að draga úr þessum mun þarf að fylgjast með mælikvörðum sem gefa hann til kynna, miðla þeim áfram og styðja þannig við forgangsröðun aðgerða á vettvangi ríkis og sveitarfélaga. Hjá embætti landlæknis er unnið að heilsueflingu á heildrænan hátt í gegnum Heilsueflandi samfélag, Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla og Heilsueflandi vinnustaði. Áhersla er lögð á að skapa aðstæður sem stuðla að heilsu og vellíðan allra. Á grundvelli svæðisbundinna lýðheilsuvísa og Heilsueflandi samfélags geta sveitarfélög, heilbrigðisþjónusta og aðrir hagsmunaaðilar unnið markvisst saman að því að bæta heilsu og líðan allra íbúa.

Val á lýðheilsuvísum

Mikil vinna liggur að baki vali og útfærslu á svæðisbundnum lýðheilsuvísum embættisins. Við valið er sjónum fyrst og fremst beint að þeim áhrifaþáttum heilsu og líðanar sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna. Einnig er leitast við að velja þá þætti í sjúkdómabyrði sem mikilvægt er að heilbrigðisþjónusta á hverju svæði geri sér grein fyrir og bregðist við eftir föngum. Þá eru bæði innlendar og alþóðlegar stefnur og aðgerðaáætlanir á ýmsum málefnasviðum sem snerta lýðheilsu hafðar til hliðsjónar. Þar má nefna heilbrigðis– og lýðheilsustefnu til ársins 2030, stefnu um lýðheilsu og aðgerðir sem stuðla að Heilsueflandi samfélagi frá 2016, stefnu Evrópudeildar WHO um heilsu kvenna frá 2016, aðgerðaáætlun WHO vegna langvinnra sjúkdóma frá 2013, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá 2020, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og árlegar starfsáætlanir embættis landlæknis.

Gerð er frekari grein fyrir rökstuðningi fyrir vali á lýðheilsuvísum í sérstakri umfjöllun um hvern vísi fyrir sig. 

Gögn

Margvísleg gögn liggja til grundvallar útreikningum lýðheilsuvísa. Má þar nefna gögn úr heilbrigðisskrám landlæknis s.s. dánarmeinaskrá, krabbameinsskrá og lyfjagagnagrunni en einnig gögn úr reglubundnum könnunum og rannsóknum á borð við Heilsu og líðanframkvæmd af embætti landlæknis, vöktun á áhrifaþáttum heilbrigðis sem einnig er á ábyrgð embættisins og Íslensku æskulýðsrannsóknina, framkvæmd af Menntavísindastofnun Háskóla Íslands. Auk þess hafa gögn frá Hagstofu Íslands, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Sjúkratryggingum Íslands, og Tryggingastofnun ennfremur verið nýtt við útreikninga á lýðheilsuvísum.

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis