Kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík
Einstaklingum sem eiga íbúðarhúsnæði í Grindavík býðst að selja það til Fasteignafélagsins Þórkötlu sem er í eigu ríkisins. Hægt er að óska eftir að félagið kaupi húsnæðið til 31. Mars 2025.
Þau sem ekki geta nýtt sér stafræna umsókn er bent á að hafa samband í gegnum samskiptaform en haft verður sambandi við fólk í framhaldinu.
Eftir að umsókn hefur verið send inn fer hún í umsýslu til sýslumanna fyrir hönd Fasteignafélagsins Þórkötlu sem annast kaup, umsýslu og ráðstöfun íbúðarhúsnæðisins.
Þau sem ákveða að selja ekki eiga áfram rétt á bótum frá NTÍ ef húsnæðið skemmist af völdum náttúruhamfara.
Skilyrði
Skilyrði sem gilda um eiganda húsnæðis
Þinglýstur eigandi þarf að vera einstaklingur eða dánarbú.
Þinglýstur eigandi þarf að hafa verið með skráð lögheimili í eigninni 10. nóvember 2023.
Hægt er að sækja um undanþágu frá skilyrði um lögheimili ef tímabundnar aðstæður skýra það. Þau sem eru undanþegin lögheimilisskráningu á þessum tíma skulu snúa sér til sýslumanna með sína umsókn.
Skilyrði sem gilda um húsnæði
Húsnæðið þarf að vera íbúðarhúsnæði.
Húsið má vera fullbúið eða enn í smíðum. Húsnæði í smíðum þarf að vera vátryggt með brunatryggingu húseignar í smíðum.
Húsnæðið þarf að vera staðsett innan þéttbýlismarka Grindavíkurbæjar samkvæmt gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins.
Húsnæðið má vera metið óviðgerðarhæft af Náttúruhamfaratryggingu Íslands og búið að gera upp bætur. Þá er húsnæðið tekið yfir af Þórkötlu fasteignafélagi án þess að greitt sé fyrir það.
Söluverð
Fullbúið húsnæði
Söluverð er 95% af brunabótamati eignar á söludegi. Þú getur séð brunabótamat fyrir þitt íbúðahúsnæði í Grindavík á mínum síðum.
Húsnæði í smíðum
Fyrir húsnæði í smíðum er söluverð 95% af áætluðu endurstofnverði miðað við byggingastig.
Endurstofnverð er áætlun á því hvað kostar að byggja húsnæðið aftur.
Ef brunabótamat eða áætlað endurstofnverð er greinilega hærra en áætlað markaðsverð 9. nóvember 2023 þá er söluverð miðað við markaðsverð sem verður metið sérstaklega af félaginu.
Greiðsla
Greiðsla til seljanda er söluverð að frádregnum eftirfarandi liðum:
Áhvílandi lán
Óski seljandi þess að Fasteignafélagið Þórkatla taki yfir lánin sem hvíla á húsnæðinu dregst það frá greiðslu.
Ef skuldir eru fallnar í gjalddaga við söluna þarf seljandi að gera þær upp samhliða, líkt og í hefðbundnum fasteignaviðskiptum.
Greiddar bætur frá NTÍ
Hafi Náttúruhamfaratrygging Íslands þegar greitt vátryggingabætur vegna húsnæðisins dragast þær frá greiðslunni.
Gjaldfallnar skuldir
Skuldir sem fallnar eru í gjalddaga við kaupin og tengjast eignarhaldi íbúðarhúsnæðisins, til dæmis húsfélagsgjöld, skulu gerðar upp af seljanda samhliða.
Verðmæti eignar hefur minnkað
Við ákvörðun fjárhæðar greiðslu er tekið tillit til þess ef verðmæti eignar hefur rýrnað að hálfu seljanda áður en samningur komst á.
Rýrnun getur til dæmis falist í að eigandi hafi fjarlægt svokallað fylgifé fasteignarinnar, hluti sem eiga almennt að fylgja með við sölu. Þetta getur til dæmis verið innréttingar, eldavél, ofn og önnur tæki, gluggatjöld, ljósleiðari, ljós og fleira þess háttar.
Sölukostnaður
Ríkissjóður í gegnum Fasteignafélagið Þórkötlu ber kostnað af viðskiptunum en ekki seljandi eins og venja er í fasteignaviðskiptum.
Söluferli
Umsókn
Hægt er að sækja um söluferli húsnæðis til 31. Mars 2025.
Þeir sem ekki geta nýtt sér stafræna umsókn munu geta bókað tíma hjá sýslumanni og fengið meiri þjónustu.
Í umsóknarferlinu er hægt að
óska eftir forgangsrétti til eignarinnar við endursölu eða útleigu
tilgreina þann afhendingardag sem óskað er eftir, á bilinu 1-3 mánuðum eftir kaupsamning
Fasteignafélagið Þórkatla fær til sín allar umsóknir sem berast. Ef umsókn reynist ófullnægjandi eða þörf er á viðbótargögnum þá er það tilkynnt skriflega og seljanda veittur frestur til útbóta. Annars verður umsókn synjað.
Kaupsamningur
Kaupsamningum sem eru undirritaðir rafrænt verður þinglýst rafrænt í kjölfarið.
Greiðsla
Greiðslan fer fram við undirritun kaupsamnings.
Við söluna er 5% af verðinu haldið eftir. Það fæst greitt að fullu við afsal ef engar skuldir eða eignarrýrnum kemur í ljós.
Afhending
Afhending er 1-3 mánuðum eftir undirritun kaupsamings. Kaupandi velur afhendingartíma í umsóknarferlinu.
Afsal
Afsal er um mánuði eftir afhendingu.
Þá fær seljandi síðustu greiðsluna, afsalsgreiðsluna, sem er 5% söluverðs. Til frádráttar geta komið óuppgerð fasteignagjöld, húsfélagagjöld og brunatryggingar eða aðrar kröfur sem fallnar voru í gjalddaga á afhendingardegi fasteignar.
Dæmi
Hjón velja að sækja um að Fasteignafélagið Þórkatla kaupi íbúðarhúsnæði þeirra. Þau eiga eignina saman og skiptist eignarhlutur þeirra jafnt.
Brunabótamat eignar er 45 milljónir og eignarhlutur þeirra er 30 milljónir.
Þau fylla út umsókn á Ísland.is eða hjá sýslumönnum.
Báðir eigendur undirita umsóknina, velja afhendingartíma og taka afstöðu til forgangsréttar til að kaupa eða leigja húsnæðið aftur síðar.
Fasteignafélagið Þórkatla tekur á móti umsókninni, yfirfer og samþykkir kaupin.
Báðir eigendur undirrita kaupsamninginn.
Eigendur fá greiddan út sinn hlut fyrir utan 5% afsalsgreiðslu sem haldið er eftir til að gera upp ógreidd gjöld. Hvor aðili fær því 14.250.000 krónur inn á sinn reikning.
Húsnæðið er afhent á þeim tíma sem valinn var í umsóknarferlinu, á bilinu 1-3 mánuðum eftir kaupsamning.
Afsal og afsalsgreiðsla fer fram um mánuði eftir afhendingu.
Kaup á íbúðarhúsnæðum í Grindvík spurt og svarað
Kæruleiðir
Framkvæmdin er byggð á lögum um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.
Ákvæði stjórnsýslulaga gilda eingöngu um ákvarðanir félagsins sem varða kaup á íbúðarhúsnæði skv. 3. gr. og um veitingu forgangsréttar skv. 4. gr. Aðilum máls er heimilt að kæra ákvarðanir á grundvelli 3. og 4. gr. laganna til úrskurðarnefndar náttúruhamfaratryggingar.
Þjónustuaðili
Sýslumenn